Varnarmaðurinn Finnur Tómas Pálmason gekk í raðir sænska félagsins Norrköping í síðasta mánuði.
Finnur Tómas skaust fram á sjónarsviðið sumarið 2019 þegar hann varð lykilmaður í vörn KR þegar liðið varð Íslandsmeistari. Samtals hefur Finnur spilað 31 leik í Pepsi Max-deildinni undanfarin tvö ár en hann á einnig 23 leiki að baki með yngri landsliðum Íslands.
Fram kom í útvarpsþættinum Fótbolta.net í dag að Norrköping hafi borgað KR 24 milljónir íslenskra króna fyrir Finn Tómas.
„Við erum búnir að fá tölur á hvað hann kostaði. Það ku vera 24 milljónir sem KR-ingar fengu. Það er upphæð sem heldur betur skiptir máli fyrir KR sem komst ekki í Evrópukeppni á síðasta ári," sagði Elvar Geir Magnússon.
„Þessar norrænu sölur hafa verið rosalega daprar," sagði Tómas Þór Þórðarson. „Í seinni tíð hefur þetta farið meira að snúa um næstu sölu. Menn eru nánast að hleypa mönnum frítt."
„Það eru svona tíu ár síðan að við vorum að tala um þessar klassísku 20 milljónir. Ef við erum að senda tvo unga stráka fyrir 20 milljónir plús, ég tala ekki um Valgeir (Lunddal) fyrir 30, það er frábært að heyra," sagði Tómas.
Norrköping endaði í 6. sæti í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili en Ísak Bergmann Jóhannesson er á meðal leikmanna liðsins.
Félagið hefur verið með marga Íslendinga innan sinna raða undanfarin ár en Arnór Ingvi Traustason og Arnór Sigurðsson slógu meðal annars báðir í gegn hjá félaginu.
Hlusta má á þáttinn í heild sinni hér að neðan.
Athugasemdir