Þróttur Vogum bættu við sig fjórum leikmönnum fyrir gluggalok í gær en þeir Eyþór Orri Ómarsson, Franz Bergmann Heimisson, Eiður Baldvin Baldvinsson og Birgir Halldórsson eru allir búnir að skrifa undir hjá félaginu.
Eyþór Orri er 21 árs gamall og varð yngsti leikmaður í sögu efstu deildar þegar hann kom inn á í 2-0 sigri á KR, met sem hefur verið slegið tvisvar síðan.
Leikmaðurinn á að baki 35 leiki með ÍBV í tveimur efstu deildunum og þá 13 mörk í 41 deildarleik með KFS, venslafélagi ÍBV.
Hann er genginn í raðir Þróttar Vogum en lengd samningsins kemur ekki fram.
Franz Bergmann, sem er tvítugur, fær félagaskipti frá Spáni og mun því spila sitt annað tímabil á Vogaídýfu-vellinum.
Hann spilaði með yngri flokkum Fram og ÍA áður en hann skipti yfir í Kára og tók eitt tímabil með þeim í 3. deildinni. Á síðasta ári fór hann í Þrótt og lék 13 leiki og skoraði 1 mark í 2. deild.
Eiður Baldvin Baldvinsson er einnig tvítugur og tekur líka sitt annað tímabil með liðinu.
Hann skiptir alfarið frá KR en hann reyndist Þrótturum mikilvægur á síðustu leiktíð með 5 mörk í 9 leikjum.
Hinn 19 ára gamli Birgir Halldórsson kemur þá á láni frá Þrótti R. út sumarið.
Birgir lék sinn fyrsta og eina deildarleik með Þrótturum í 5-2 sigri á Dalvík/Reyni á síðasta tímabili.
Öflug styrking hjá Vogamönnum sem ætlar sér greinilega stóra hluti í 2. deildinni á komandi tímabili.
Athugasemdir