Man Utd heldur áfram að reyna við Dorgu, Neymar er til í að fórna launum til að komast til Santos og Aston Villa hefur áhuga á varnarmanni Chelsea
   fös 30. júní 2023 13:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Brynjar Gauti um meiðslin: Búið að útiloka verstu möguleikana
Brynjar Gauti Guðjónsson.
Brynjar Gauti Guðjónsson.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Brynjar Gauti Guðjónsson, varnarmaður Fram, var fluttur úr Úlfarsárdal með sjúkrabíl eftir leik gegn HK í Bestu deildinni síðasta miðvikudagskvöld. Hann meiddist á öxl í leiknum.

Jón Sveinsson, þjálfari Fram, óttaðist eftir leikinn að Brynjar yrði lengi frá. „Við erum að missa Brynjar eitthvað út sýnist mér, hann slasaðist illa í þessari viðureign í lokin. Það verður skarð að fylla," sagði þjálfarinn við Fótbolta.net eftir leikinn.

Brynjar er lykilmaður í varnarlínu Fram en hann sagði í samtali við Fótbolta.net að staðan væri sæmileg í dag.

„Það er allavega ekkert brotið. Það er bara spurning með einhver liðbönd, tognun og eitthvað. Ég tek því rólega fram yfir helgi og sjáum við hvernig staðan er, hvort ég þurfi að fara í frekari myndatöku eða eitthvað," segir Brynjar. „Það er búið að útiloka brot og að ég hafi farið úr lið. Það er búið að útiloka verstu möguleikana. Læknarnir segja að ef þetta er tognun eða eitthvað slíkt, að þá ætti þetta að jafna sig tiltölulega fljótt."

Hann er ekki búinn að fá neinn tímaramma eins og er. „Ég þarf bara að sjá hvernig staðan verður eftir helgi. Það er sem betur fer langt í næsta leik. Maður setur stefnuna á hann, en það er erfitt að segja til um það í augnablikinu."

„Ég fer í tæklingu og við Örvar lendum saman, hann lendir ofan á mér - á öxlinni. Ég skell svo með hausinn í grasið líka. Ég veit ekki alveg hvernig þetta endaði svona en ég fann helvíti vel fyrir þessu," segir Brynjar.

Fram kom sér upp úr fallsæti með sigrinum gegn HK. „Það var geggjað að klára þennan sigur. Hann var lífsnauðsynlegur fyrir okkur. Það var fínt að við kláruðum þetta þó þetta hafi verið óþarflega spennandi í lokin," sagði Brynjar að lokum en næsti leikur Fram er gegn ÍBV á laugardaginn í næstu viku. Það er spurning hvort þessi öflugi varnarmaður nái þeim leik en hann stefnir á það.
Athugasemdir
banner
banner
banner