Spænska félagið Barcelona er hætt við að fá þýska miðjumanninn Joshua Kimmich næsta sumar en þetta kemur fram í grein El Nacional.
Barcelona var með Kimmich ofarlega á óskalistanum fyrir næsta tímabil.
Kimmich, sem er 29 ára gamall, verður samningslaus á næsta ári og er í miklum metum hjá Hansi Flick, þjálfara Börsunga, en þeir tveir unnu saman hjá Bayern München.
El Nacional segir að Barcelona sé hætt að eltast við Kimmich þar sem það telur enga þörf á því að fá hann.
Hinn 21 árs gamli Marc Casado hefur komið með ferska vinda inn í lið Börsunga á þessu tímabili og er í dag fastamaður á miðsvæðinu, en hann er uppalinn hjá spænska félaginu.
Casado átti upphaflega að vera varamaður á þessu tímabili og átti hinn efnilegi Marc Bernal að fá fleiri tækifæri, en Casado greip tækifærið eftir að Bernal meiddist illa.
Miðjumaðurinn hefur lagt upp tvö mörk í La Liga á þessu tímabili, þar á meðal eitt í 4-0 stórsigrinum á Real Madrid á Santiago Bernabeu, en Börsungar eru með sex stiga forystu á toppnum eftir ellefu umferðir.
Athugasemdir