Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   fös 15. nóvember 2013 12:23
Magnús Már Einarsson
Sveppi segir að Alfreð byrji - Eiður á bekknum
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sverrir Þór Sverrisson, Sveppi, segir að Alfreð Finnbogason verði í byrjunarliði íslenska landsliðsins gegn Króatíu í kvöld en Eiður Smári Guðjohnsen muni byrja á bekknum.

Sveppi greindi frá þessu í útvarpsþættinum Fótbolti.net sem er núna í gangi á X-inu 97,7 en hann segist hafa rætt við vin sinn Eið í morgun og fengið þessi tíðindi.

,,Ég er brjálaður núna af því að Eiður byrjar ekki inná, Alfreð Finnbogason byrjar. Þetta er skúbb í beinni útsendingu og þetta er staðfest, Eiður byrjar á bekknum og það pirrar mig sko," sagði Sveppi í þættinum.

,,Ég fór til hans í morgun og við fengum okkur kaffi og hann sagði mér frá þessu. Þeir ætla að spila með Kolla og Alfreð frammi, þeir eru greinilega að fara að spila einhvern sóknarbolta en hann ætlar að henda Eið út og vera með tvo djúpa sentera."

Byrjunarlið Íslands verður líklega tilkynnt um klukkan 18:00 í kvöld, klukkustund fyrir leikinn sem hefst klukkan 19:00.

Eiður Smári hefur byrjað síðustu þrjá landsleiki Íslands gegn Albaníu, Kýpur og Noregi eftir að hafa komið inn á gegn Sviss þar sem hann átti þátt í að snúa 4-1 tapi í 4-4 jafntefli.

Eiður hefur aftur á móti lítið spilað með Club Brugge á tímabilinu á meðan Alfreð hefur verið sjóðheitur með Heerenveen og skorað 14 mörk í 11 leikjum, síðast þrennu um síðustu helgi.

Að öðru leyti er helsta spurningamerkið í byrjunarliðinu hægri bakvarðarstaðan en þar þykja Ólafur Ingi Skúlason og Hallgrímur Jónasson koma helst til greina.
Athugasemdir
banner
banner