Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   mán 18. september 2017 07:30
Hafliði Breiðfjörð
Sara Björk um ástandið í Danmörku: Verður ekkert verkfall hjá okkur
Sara Björk á landsliðsæfingu  í vikunni.
Sara Björk á landsliðsæfingu í vikunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ástandið hjá danska kvennalandsliðinu var rætt á kaffifundi kvennalandsliðsins með fréttamönnum í höfuðsstöðvum sambandsins í gær.

Danska landsliðið á í deilum við danska knattspyrnusambandið um kjör og aðstöðu sem liðinu er boðið upp á. Vegna þessa neituðu þær að spila vináttuleik gegn Hollandi í síðustu viku og ljóst að ekkert verður af leik liðsins gegn Ungverjalandi í undankeppni HM 2019.

Sara Björk Gunnarsdóttir fyrirliði íslenska liðsins sagði við Fótbolta.net að leikmenn íslenska liðsins væru sáttir með stöðuna hér og ljóst að þær myndu ekki grípa til slíkra aðgerða.

„Við erum gríðarlega sáttar. Við erum í góðum málum og það verður ekkert verkfall hjá okkur," sagði Sara Björk við Fótbolta.net.

„Við erum aðeins búnar að ræða um þetta mál og lesa um það í fjölmiðlum," hélt hún áfram.

„Svo er Pernille Harder leikmaður danska landsliðsins með mér í liði og við ræddum þetta mál áður en við fórum í landsliðsverkefnið. Hún vissi ekki þá að þær væru á leið í verkfall og bjóst við að þær myndu semja. Sambandið var ekki tilbúið til þess." 
Athugasemdir
banner
banner