Spænski stjórinn Mikel Arteta segist vonsvikinn með að Arsenal hafi ekki náð að styrkja hópinn fyrir síðari hluta tímabilsins.
Arsenal bráðvantar sóknarmann til þess að auka möguleikana á deildartitli.
Gabriel Jesus er frá út tímabilið og þá verður Bukayo Saka að minnsta kosti frá í mánuð í viðbót. Arsenal lagði fram tilboð í Ollie Watkins, framherja Aston Villa, en því var hafnað og þá hafði Arsenal áhuga á Mathys Tel, en hætti við að reyna fá hann.
Arteta segist vonsvikinn með að félagið hafi ekki náð að styrkja hópinn.
„Við vorum með skýr áform sem eru alltaf til staðar þegar glugginn er opinn og þau áform eru að skoða möguleikana til að styrkja hópinn með leikmönnum sem geta haft áhrif. Við náðum því ekki þannig við erum vonsviknir í þeim skilningi, en við erum líka meðvitaðir um að við viljum bara fá ákveðnar týpur af leikmönnum og verðum að vera mjög agaðir þegar það kemur að því og ég held að við munum gera það,“ sagði Arteta.
Hann telur Arsenal ekki að vera að spila áhættuspil með því að taka ekki fleiri leikmenn inn.
„Þetta er ekki áhætta sem við erum að taka heldur raunveruleiki. Við þurfum að horfast í augu við raunveruleikann sem við búum við. Við þurfum aðeins að þróa á okkur á því sviði líka og fá fleiri leikmenn úr akademíunni auk þess sem við þurfum að ná að halda leikmönnunum heilum sem eru hér fyrir.“
„Það er starf sem er varanlegt og heldur áfram að þróast, þannig við þurfum að vera á tánum. Við þurfum að vera mjög sveigjanlegir í fremstu víglínu og sjá til þess að þeir sem eru heilir haldist heilir og haldi áfram að leggja sitt af mörkum,“ sagði Arteta.
Athugasemdir