„Það er geggjuð tilfinning að vera kominn í eins stórt félag og Fram er," segir varnarmaðurinn Sigurjón Rúnarsson, nýr leikmaður Fram, í viðtali við Fótbolta.net.
„Þetta er frábær hópur, maður fær ekki mikið betri aðstöðu í dag og umgjörðin í kringum þetta er mjög góð. Fram er félag sem á heima í efri hlutanum í Bestu deildinni."
„Þetta er frábær hópur, maður fær ekki mikið betri aðstöðu í dag og umgjörðin í kringum þetta er mjög góð. Fram er félag sem á heima í efri hlutanum í Bestu deildinni."
Sigurjón er 24 ára gamall miðvörður sem hefur spilað stórt hlutverk í liði Grindavíkur og verið í fyrirliðahópi félagsins. Varnarmaðurinn hefur spilað 141 leik og skorað níu mörk í deild- og bikar með Grindvíkingum síðan hann lék sinn fyrsta leik með meistaraflokki árið 2017. En núna hefst nýr kafli á ferlinum á öðrum stað.
„Þetta gekk mjög hratt fyrir sig. Ég þekki Helga Sig (aðstoðarþjálfara Fram) frá fyrri tíð í Grindavík. Ég hitti hann á göngugötunni á Tenerife þar sem ég útskýrði fyrir honum hver mín staða væri," segir Sigurjón.
„Svo rifti ég samningi mínum og heyri í honum. Þá gekk þetta mjög hratt fyrir sig. Það voru engin önnur félög í umræðunni."
Sigurjón segir það frábært að vinna aftur með Helga Sig og einnig með Rúnari Kristinssyni, sem er aðalþjálfari Fram. „Þetta eru frábærir þjálfarar, með betri þjálfurum á landinu. Svo má ekki gleyma Gareth, markvarðarþjálfara, sem er alveg frábær."
Tekið vel á móti okkur
Það hefur verið mikil leikmannavelta hjá Fram eftir síðasta tímabil og þeir mæta með mikið breytt lið til leiks á næsta ári. Sigurjón segir að það hafi verið gott að koma inn í hópinn og aðlagast nýju umhverfi.
„Það er búin að vera mikil leikmannavelta en það er bara hluti af þessu," segir Sigurjón.
„Það hefur gengið rosalega vel að koma inn í þetta. Það hefur verið tekið vel á móti okkur, þetta er frábær hópur og það er geggjað að koma inn í hann."
Sigurjón er spenntur að taka skrefið aftur upp í Bestu deildina.
„Maður hefur verið nokkur ár í Lengjudeildinni. Ég var að vonast til þess að taka skrefið upp með Grindavík en ég er mjög spenntur að taka slaginn í Bestu deildinni með Fram."
Það var bara léttir
Sigurjón viðurkennir að síðasta tímabil hafi verið nokkuð skrítið með Grindavík eftir allt sem hafði gerst í bænum. Liðið var um tíma án heimilis og andrúmsloftið í hópnum var erfitt.
„Ég ætlaði að taka skrefið í fyrra frá Grindavík en svo gerðist allt sem gerðist. Það var sjarmi að taka síðasta tímabilið með Grindavík," sagði Sigurjón.
„Þetta fór ekki eins og það átti að fara. Stemningin náðist aldrei upp og við náðum ekki takti. Þetta var tilfinningalegt tímabil sem fór ekki eins og það átti að fara."
Hann segir þó að það hafi ekki verið erfitt að ná sér upp til að spila fótbolta þrátt fyrir aðstæður.
„Þegar maður kemur inn á fótboltavöllinn þá ýtir maður öllu utanaðkomandi frá og einblínir á fótboltann. Mér fannst aldrei erfitt að stíga inn á völlinn, það var alltaf bara léttir," segir Sigurjón. Hann segir að það hafi verið erfitt að fara frá Grindavík en það hafi verið kominn tími til að taka næsta skref á ferlinum.
„Ég verði helsti stuðningsmaður liðsins. Bróðir minn er að taka við af mér og er að koma upp í meistaraflokkinn."
Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan þar sem Sigurjón ræðir meira um komandi sumar með Fram.
Athugasemdir