Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mán 06. júlí 2020 15:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bestur í 3. umferð: Félagið með stærsta hjartað
Sævar Atli Magnússon (Leiknir R)
Lengjudeildin
Sævar í leiknum gegn Keflavík.
Sævar í leiknum gegn Keflavík.
Mynd: Haukur Gunnarsson
Leiknismenn tóku stigin þrjú gegn Keflvíkingum.
Leiknismenn tóku stigin þrjú gegn Keflvíkingum.
Mynd: Haukur Gunnarsson
Sævar Atli Magnússon, tvítugur fyrirliði Leiknis í Breiðholti, er leikmaður 3. umferðar í Lengjudeildinni. Hann fór fyrir sínum mönnum í útisigri á Keflavík sem hafði farið ótrúlega vel af stað í deildinni.

„Já, við vorum alltaf klárir á því," segir Sævar um það hvort Leiknismenn hafi alltaf vitað að þeir gætu farið til Keflavíkur og tekið þrjú stig. „Keflvíkingar eru með hörkugott lið, spila beinskeyttan sóknarleik og eru sterkir til baka. En okkur fannst við skulda góða frammistöðu eftir seinasta leik á móti Vestra svo við mættum 100 prósent klárir til leiks og þegar við erum 'on' þá erum við drullugott fótboltalið og virkilega erfitt að vinna okkur."

Sjá einnig:
Lið 3. umferðar: Flestir Leiknismenn og Gary Martin í fyrsta sinn

„Við 'mötchuðum' þá í því sem þeir eru góðir í, fylgdum skipulaginu sem þjálfararnir settu upp og við spiluðum okkar bolta bara ágætlega. Síðan fannst mér viljinn og dugnaðurinn bara meiri hjá okkur en þeim."

Leiknismenn eru með góða blöndu af ungum og upprennandi Leiknismönnum í bland við reynslumeiri leikmenn. Margir efnilegir leikmenn eru að koma upp hjá Leikni og má nefna Daníel Finns Matthíasson, Sævar Atla og Vuk Óskar Dimitrijevic í því samhengi.

Sævar segir að það sé gaman að hafa uppalda leikmenn í hópnum en þeir sem koma úr öðrum liðum séu fljótir að verða Leiknismenn.

„Það er alltaf gaman og mögulega meira sexý að vera með marga uppalda leikmenn í meistaraflokki, því þá er félagið að gera eitthvað rétt, en málið með Leikni er það að þegar það koma svokallaðir "aðkomumenn" í félagið þá tekur þá ekki langan tíma að breytast í grjótharða Leiknismenn. Leiknir er kannski fámennasta og "minnsta" félagið á höfuðborgarsvæðinu en aftur á móti með stærsta hjartað," segir Sævar.

„Núna erum við með sirka 25 grjótharða Leiknismenn sem eru tilbúnir að gefa allt sem þeir eiga í hvert einasta verkefni að hverju sinni."

Sævar tók við fyrirliðabandinu fyrir tímabilið þrátt fyrir að vera eins og áður segir aðeins tvítugur að aldri. „Það eru gríðarleg forréttindi að fá að vera fyrirliði og ég er ógeðslega stoltur af því en við erum við með mjög marga af leiðtoga í liðinu sem gætu hæglega verið með þetta band á hendinni svo það skiptir svo sem ekki öllu."

Leiknismenn voru mjög nálægt því að fara upp í fyrra og hafa tekið sjö stig úr fyrstu þremur leikjunum. „Það er bara gamla góða klisjan, við tökum einn leik í einu og næsti leikur er heima á móti ÍBV og við ætlum okkur að vinna þann leik," segir Sævar Atli, fyrirliði Leiknis.

Bestir í fyrri umferðum:
Bestur í 1. umferð: Fred Saraiva (Fram)
Bestur í 2. umferð: Bjarki Þór Viðarsson (Þór)
Sævar Atli: Rosalega sterkt fyrir okkur
Athugasemdir
banner
banner
banner