Van Dijk vill framlengja - PSG og Juve vilja Salah - Man Utd vill Rabiot
   þri 06. ágúst 2024 21:23
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Fram lagði Stjörnuna - Valur tapaði á Akureyri
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það fóru þrír slagir fram í Bestu deild karla í dag og voru þeir allir í beinni textalýsingu hjá Fótbolta.net.

Lestu um leikinn: Fram 2 -  1 Stjarnan

Fram tók á móti Stjörnunni í hörkuslag og voru heimamenn sterkari aðilinn í nokkuð tíðindalitlum fyrri hálfleik.

Það var lítið um færi en Djenairo Daniels tók forystuna fyrir Fram í síðari hálfleik. Hann skoraði eftir góða fyrirgjöf frá Má Ægissyni, en Árni Snær Ólafsson í marki Stjörnunnar missti af boltanum.

Fram hélt áfram að sækja eftir opnunarmarkið en það voru Garðbæingar sem náðu að jafna tíu mínútum síðar. Örvar Eggertsson skoraði þá eftir frábæran undirbúning frá Róberti Frosta Þorkelssyni.

Staðan hélst jöfn næstu 20 mínútur, eða allt þar til í uppbótartíma þegar vörn Stjörnunnar sofnaði á verðinum og leyfði heimamönnum að gera sigurmark. Magnús Þórðarson skoraði þá eftir mjög einfalda aukaspyrnu frá Fred Saraiva og urðu lokatölur 2-1 fyrir Fram.

Niðurstaðan er verðskuldaður sigur heimamanna sem fara upp í 5. sæti Bestu deildarinnar og eru þar með 26 stig eftir 17 umferðir. Stjarnan situr eftir með 23 stig.

Fram 2 - 1 Stjarnan
1-0 Djenairo Daniels ('61)
1-1 Örvar Eggertsson ('72)
2-1 Magnús Þórðarson ('91)

Í Kópavogi tók Breiðablik á móti Fylki og lentu heimamenn ekki í erfiðleikum með fallbaráttuliðið úr Árbæ.

Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 0 Fylkir

Blikar voru talsvert sterkari aðilinn í tíðindalitlum leik og gerðu nóg til að sigra þægilega. Ísak Snær Þorvaldsson var líflegur í fremstu víglínu og fiskaði vítaspyrnu í fyrri hálfleik, sem Höskuldur Gunnlaugsson skoraði úr.

Varnarjaxlinn Viktor Örn Margeirsson tvöfaldaði forystuna eftir hornspyrnu í upphafi síðari hálfleiks, áður en Höskuldur innsiglaði 3-0 sigur með marki úr annari vítaspyrnu. Aftur var það Ísak Snær sem lét brjóta á sér innan vítateigs.

Lokatölur urðu 3-0 og eru Blikar í öðru sæti Bestu deildarinnar, sex stigum á eftir toppliði Víkings R. og með leik til góða. Fylkir er áfram í botnbaráttu með 12 stig úr 16 leikjum.

Breiðablik 3 - 0 Fylkir
1-0 Höskuldur Gunnlaugsson ('32, víti)
2-0 Viktor Örn Margeirsson ('47)
3-0 Höskuldur Gunnlaugsson ('68, víti)

Á Akureyri var Valur sterkara liðið í fyrri hálfleik gegn KA en Jónatan Inga Jónssyni tókst ekki að nýta dauðafærið sem hann fékk.

Lestu um leikinn: KA 1 - 0 Valur

Viðar Örn Kjartansson var í byrjunarliði KA og refsaði með marki undir lok fyrri hálfleiks. Hann fylgdi skoti Daníels Hafsteinssonar eftir með marki af stuttu færi með síðustu snertingu fyrri hálfleiks.

KA leiddi því í leikhlé og byrjaði seinni hálfleikinn betur, sem varð til þess að Viðar Örn slapp í gegn á 57. mínútu. Frederik Schram tók hann niður rétt fyrir utan vítateigslínuna og fékk beint rautt spjald að launum, en KA tókst ekki að skora úr aukaspyrnunni. Hallgrímur Mar skaut boltanum í slána.

Ögmundur Kristinsson kom inn fyrir Frederik og þurfti Viðar Örn að fara meiddur af velli beint í kjölfarið.

Tíu Valsmönnum tókst ekki að jafna metin og urðu lokatölur 1-0. Þetta er fimmti sigur KA í síðustu sjö deilldarleikjum eftir hrikalega slæma byrjun á tímabilinu.

Akureyringar eru með 22 stig eftir 17 umferðir á meðan Valur er í þriðja sæti með 28 stig og leik til góða, eftir annan tapleikinn í röð.

KA 1 - 0 Valur
1-0 Viðar Örn Kjartansson ('45)
Rautt spjald: Frederik Schram, Valur ('59)
Athugasemdir
banner
banner