Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   sun 07. júní 2020 13:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gunnar Guðmunds: Himinlifandi að Dion hafi valið Þrótt
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeildina: 10. sæti - Þróttur R.
Gunnar Guðmundsson.
Gunnar Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þrótturum er spáð tíunda sæti.
Þrótturum er spáð tíunda sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dion Acoff samdi við Þrótt.
Dion Acoff samdi við Þrótt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Guðmundsson er að fara inn í sitt fyrsta tímabil sem þjálfari Þróttar í Laugardal. Gunnar hefur mikla reynslu í þjálfun og kemur hann með sínar áherslur inn í lið Þróttar. Hann á að koma í veg fyrir að annað vonbrigðartímabil verði niðurstaðan hjá Þrótti.

Þrótturum er spáð tíunda sæti í Lengjudeild karla, sætinu þar sem þeir lentu í fyrra. „Í rauninni kemur spáin ekkert á óvart, út frá því hvar liðið endaði í fyrra og svo höfum við ekkert verið að ná frábærum úrslitum í vetur."

„Ég held að það hafi verið vonbrigði fyrir alla Þróttara að enda þetta neðarlega (í fyrra), ég held að væntingarnar hafi verið meiri fyrir mót. Það sem skiptir máli er að liðið hélt sér í deildinni, þetta stóð tæpt í endann en aðalatriðið er að liðið hélt sér uppi í fyrra."

Hvernig kemur Þróttur í veg fyrir annað vonbrigðartímabil? „Það sem við höfum verið að vinna í þennan veturinn er að þétta okkur aðeins. Það sem skiptir máli fyrir komandi tímabil er að menn fari inn í tímabilið með rétt hugarfar. Þróttur byrjaði ekki síðasta tímabil illa og stóð sig vel framan af móti, svo kom taphrina og það kemur þeim í erfiða stöðu í lokin. Það er það sem við þurfum að hafa í huga að mótið er langt og menn þurfa að hafa úthald og einbeitingu í heilt tímabil. Það er það sem skiptir sköpum," segir Gunnar.

„Tímabilið í ár er kannski líka ólíkt að því leytinu til að það er spilað aðeins þéttara. Undirbúningstímabilið er ólíkt því sem áður hefur verið. Það eru mörg lið sem koma kannski inn í tímabilið í svolítilli óvissu."

Undirbúningstímabilið hefur verið sérstakt í ljósi kórónuveirufaraldursins og kom um tveggja mánaða tímabil, frá mars til maí, þar sem lið gátu ekki æft saman, og voru fótboltamenn þess í stað að taka heimaæfingar. „Hvað á maður að segja? Það er erfitt að átta sig á því hvar maður nákvæmlega stendur. Þú kemur úr tímabili þar sem menn hafa verið að æfa einir. Auðvitað treystirðu á að menn séu samviskusamir í því sem þeir eru að gera, við tókum mælingu strax aftur eftir að við fengum að æfa saman og menn komu nokkuð vel út úr þeim mælingum. Ég tel að liðið hafi æft vel á meðan þessu tímabili stóð."

„Síðan í þessum æfingaleikjum eru menn að prófa sig áfram og koma liðinu í leikæfingu. Úrslitin hafa ekki verið eins og við hefðum viljað. Það er margt sem við erum að vinna í sem er að ganga ágætlega og annað sem við getum gert betur."

Þróttur hefur bætt við sig nokkrum sterkum leikmönnum í vetur, en þá sérstaklega síðustu daga með Dion Acoff og spænska sóknarmanninum Esaú Martines Rojo. „Að mörgu leyti er ég sáttur með leikmannahópinn. Það hefur breytt verulega fyrir okkur að fá Esau og Dion."

„Við teljum samt að við þurfum að bæta alla vega tveimur, jafnvel þremur mönnum í viðbót til að hafa nægilega mikla breidd fyrir sumarið. Það reynir mikið á breiddina núna og þau lið sem hafa góða breidd hafa forskot á önnur lið. Við erum ekki alveg hættir, við erum enn að leita styrkingu þó möguleikarnir séu takmarkaðir. Vonandi tekst okkur að styrkja okkur nægilega vel á þessum síðustu tveimur, þremur vikum fyrir mót."

Esaú er spænskur sóknarmaður sem kemur til Þróttar eftir að hafa leikið í neðri deildunum á Spáni. „Þegar þú ert að taka leikmann sem hefur verið að spila í neðri deildunum á Spáni þá veistu ekki almennilega hvað þú ert að fá í hendurnar fyrr en á reynir."

„Það sem ég get sagt er að þetta er týpa sem við vorum að leita að, hann er stór og sterkur skallamaður. Hann hefur skorað hjá þeim liðum sem hann hefur spilað, hann hefur líka verið fyrirliði. Hann passar inn í það sem við vorum að leita að. Síðan hefur mín reynsla af þeim umboðsmanni sem við vorum að vinna með verið góð. Ég treysti því að hann sé að láta okkur hafa það sem okkur vantar. Auðvitað er þetta svolítið happadrætti, þetta getur tekið tíma, en í rauninni bindum við vonir að hann setji nokkur mörk fyrir okkur í sumar."

Það var mjög óvænt að Dion Acoff skyldi ganga í raðir Þróttar í síðustu viku. Dion lék með Þrótti 2015 og 2016, en fór svo í Val þar sem hann sannaði sem virkilega flottur leikmaður í Pepsi Max-deildinni. Það kom Gunnari sjálfum óvart að fá Dion. „Í rauninni var þetta mjög óvænt, líka fyrir mig."

„Þetta hafði ekki verið beint inn í myndinni hjá okkur, en þetta kom skemmtilegt á óvart. Þetta gerðist óvænt og hratt. Auðvitað er ég himinlifandi að fá svona öflugan leikmann. Hann sannaði sig ekki bara í 1. deild, heldur líka sem mjög góður úrvalsdeildarleikmaður. Við erum ekki bara að fá góðan leikmann, heldur líka með töluvert mikla reynslu. Mér skilst að einhver úrvalsdeildarfélög hafi verið á höttunum eftir honum og ég er himinlifandi að hann hafi valið Þrótt," segir Gunnar.

Eins og annars staðar þá er mikil spenna fyrir því hjá Þrótturum að hefja loksins leik í Íslandsmótinu. „Undirbúningstímabilið á Íslandi er langt fyrir og nú var það enn lengra. Þar af leiðandi er tilhlökkunin enn meiri. Þó að einhverjar deildir út í heimi séu líka að fara af stað þá held ég að almennt séu allir spenntari fyrir íslenska boltanum núna. Það er ekki bara tilhlökkun hjá okkur þjálfurum, leikmönnum heldur stuðningsmönnum líka," sagði Gunnar Guðmundsson, þjálfari Þróttar, sem stefnir á að koma liðinu hærra en í tíunda sæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner