Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. Þróttur R., 72 stig
11. Leiknir F., 45 stig
12. Magni 34 stig
10. Þróttur R.
Lokastaða í fyrra: Tímabilið í fyrra var mikið vonbrigðartímabil fyrir Þrótt þegar liðið hafnaði í tíunda sæti 1. deildar, en liðið bjargaði sér frá falli í lokaumferðinni. Stefnan hlýtur að vera sett hærra í Laugardalnum, en samkvæmt spánni kemur liðið til með að enda á svipuðum slóðum.
Þjálfarinn: Gunnar Guðmundsson tók við Þrótti af Þórhalli Siggeirssyni eftir síðustu leiktíð. Gunnar var síðasta sumar aðstoðarþjálfari Grindavíkur, en hann hefur áður þjálfað HK, Selfoss og Gróttu og hefur einnig þjálfað landslið U-17 karla. Gunnar er mjög vitur þegar kemur að fótboltafræðunum, og klár varnarþjálfari.
Álit sérfræðings
Rafn Markús Vilbergsson og Úlfur Blandon eru sérfræðingar Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina og 2. deild karla. Rafn gefur sitt álit á Þrótturum.
„Leikstíll Þróttar í sumar mun einkennast af sterkum og öguðum varnarleik. Þróttarar hafa verið duglegir að semja við sína efnilegustu leikmenn að undanförnu og er það í samræmi við stefnu félagsins að byggja lið til framtíðar á ungum uppöldum leikmönnum félagsins í bland við leikmenn sem miðla reynslu. Á síðustu dögum hefur Þróttur fengið góðan liðsstyrk með reynslumiklum leikmönnum í Dion og Rojo. Innkoma Franko Lalic og Gunnlaugs Hlyns Birgissonar var einnig mjög mikilvæg fyrir Þrótt, auk þess að vera áfram með Sindra Scheving sem spilaði vel fyrir Þrótt í fyrra sem lánsmaður frá Víkingi R. Þróttur þarf einnig að treysta á leikmenn eins og Guðmund Friðriksson, Aron Þórð Albertsson og Daða Bergsson sem á góðum degi er einn besti leikmaður deildarinnar."
„Gunnar er fjórði þjálfarinn í Laugardalnum á rétt rúmum tveimur árum og er mikilvægt fyrir félagið að ná stöðuleika í þjálfaramálum. Í fyrra var Þróttur í fallbaráttu í deildinni fram á síðustu sekúndu. Liðið fékk á sig mikið af mörkum en skoraði aftur á móti mörg. Leikstíll Gunnars mun líklega snúa þessari tölfræði við, fá á sig fá mörk en á sama tíma skora fá. Þróttarar hafa verið duglegir að styrkja liðið á síðustu dögum en fróðlegt er að sjá innkomu Dion Acoff og einnig hversu góður spænski framherjinn Esaú Martines Rojo er. Þessir leikmenn þurfa að fylla skarð Rafael Victor og Jasper Van Der Heyden sem skoruðu helming marka liðsins í fyrra. Til þess að Þróttur verði ekki í basli í sumar þurfa þeir að halda áfram að breikka og styrkja hópinn, fá þannig meiri samkeppni um stöður og geta brugðist við þéttu leikjaprógrami."
Lykilmenn: Daði Bergsson, Franko Lalic, Dion Acoff.
Gaman að fylgjast með: Það verður gaman að sjá hversu mikil áhrif Dion Acoff mun hafa á leik Þróttar. Leikmaður sem hefur mikinn mikinn hraða og staðið sig vel á Íslandi. Hraði hans mun á efa nýtast vel fyrir leikskipulag Gunnars. Einnig verða gaman að fylgjast með hvernig ungir leikmenn eins og Baldur Hannes Stefánsson og Atli Geir Gunnarsson munu standi sig í liði Þróttar í sumar.
Komnir:
Atli Geir Gunnarsson frá Njarðvík
Dion Acoff frá Englandi
Esaú Martines Rojo frá Spáni
Franko Lalic frá Víkingi Ó.
Guðmundur Axel Hilmarsson frá Selfossi
Gunnlaugur Hlynur Birgisson frá Víkingi R.
Hafþór Pétursson frá ÍA (var á láni í fyrra)
Magnús Pétur Bjarnason frá Vængjum Júpiters
Sindri Scheving frá Víkingi R. (var á láni í fyrra)
Farnir:
Archie Nkumu
Arian Ari Morina í HK (var á láni)
Arnar Darri Pétursson í Fylki
Bjarni Páll Linnet Runólfsson í Víking R. (var á láni)
Dagur Austmann í Leikni R.
Rafael Victor til Ísrael
Fyrstu þrír leikir Þróttar R:
19. júní, Þróttur R. - Leiknir R. (Eimskipsvöllurinn)
28. júní, Grindavík - Þróttur R. (Grindavíkurvöllur)
4. júní, Þróttur R. - Þór (Eimskipsvöllurinn)
Athugasemdir