Championship-deildin, enska B-deildin, fer af stað á föstudaginn og það er mikil spenna í lofti. Allir spá því að Leeds United vinni deildina. Þó þeir hafi misst lykilmenn þá hafa þeir fengið inn öfluga leikmenn og ættu að fara alla leið upp. Hér að neðan má sjá Championship-spá sem sparkspekingurinn Joe Citrone setti saman fyrir Star Sports.
1. Leeds United - Daniel Farke var hársbreidd frá því að koma Leeds upp á síðasta tímabili og nú ætlar hann á toppinn. Leeds hefur litið vel út á undirbúningstímabilinu.
2. Luton Town - Rob Edwards er áfram með stjórnartaumana og liðið hefur haldið lykilmönnum frá síðasta tímabili. Stöðugleiki einkennir Luton.
3. Burnley - Jóhann Berg Guðmundsson verður áfram hjá Burnley og ætlar að hjálpa liðinu að komast beint aftur upp. Scott Parker er mættur sem stjóri.
4. Middlesbrough - Það er mikill metnaður hjá Boro og væntingar um að Michael Carrick komi liðinu upp.
5. Coventry City - Vöktu mikla athygli í bikarnum á síðasta tímabili. Eru með ansi flotta sóknarlínu með Brandon Thomas-Asante, Haji Wright, Ephron Mason-Clark og Ellis Simms.
6. Norwich City - Það eru nýir tímar hjá Norwich þar sem hinn danski Johannes Thorup, fyrrum stjóri Nordsjælland, er tekinn við liðinu.
7. Sheffield United - Áttu skelfilegt tímabil í ensku úrvalsdeildinni og það verður verðugt verkefni fyrir hinn geðþekka Chris Wilder að endurræsa sitt lið.
8. West Bromwich Albion - Spánverjinn Carlos Corberan er spennandi stjóri en það verður strembið verkefni fyrir hann að koma West Brom í umspil.
9. Bristol City - Það má búast við bætingu á Bristolmönnum undir stjórn Englendingsins unga Liam Manning.
10. Sunderland - Síðasta tímabil voru mikil vonbrigði fyrir Sunderland en þá hafnaði liðið í sextánda sæti. Liðið hefur spennandi unga leikmenn innanborðs, eins og Jobe Bellingham bróðir Jude.
11. Sheffield Wednesday - Ráðningin á Þjóðverjanum unga Danny Röhl í fyrra reyndist algjör snilld hjá miðvikudagsmönnum og hefur búið til spennu og eftirvæntingu fyrir komandi tímabil.
12. Hull City - Hafa tekið algjöra stefnubreytingu með ráðningu á Tim Walter sem var þekktur fyrir ákafan sóknarbolta með Hamburg í Þýskalandi.
13. Swansea City - Ættu að spila áhorfsvænan fótbolta en varnarleikurinn gæti orðið hausverkur. Meðal áhugaverðra leikmanna er slóvenski sóknarmaðurinn Zan Vipotnik sem kom frá Bordeaux.
14. QPR - Gengi liðsins batnaði gríðarlega á síðasta tímabili þegar Spánverjinn Martí Cifuentes, sem var með Hammarby, var ráðinn til starfa.
15. Stoke City - Náðu að bjarga sér frá falli á síðasta tímabili með öflugum lokaspretti. Mikill léttir fyrir stuðningsmenn.
17. Preston North End - Komu á óvart með því að enda í tíunda sæti á síðasta tímabili og það verður erfitt að fylgja því eftir. Íslenski landsliðsmaðurinn Stefán Teitur Þórðarson er kominn til Preston og verður spennandi að fylgjast með honum.
18. Millwall - Eru með gæði til að halda sér frá fallbaráttu en það verður erfitt að ná sama árangri og í fyrra þegar liðið hafnaði í þrettánda sæti.
19. Watford - Gæti orðið erfitt tímabil fyrir Watford. Ef liðið fer illa af stað verður Tom Cleverley ekki lengi í starfi, þannig virka hlutirnir hjá Watford.
20. Oxford United - Gerðu frábærlega með því að vinna Bolton í umspili C-deildarinnar og nú bíður það erfiða verkefni að halda sér í Championship.
21. Derby County - Náðu því ætlunarverkefni að komast aftur upp, þó það hafi ekki verið þægileg sigling. Þurfa að gera meira á leikmannamarkaðnum.
22. Portsmouth - Gleðin braust út þegar Portsmouth vann C-deildina og komst loksins aftur upp. En það er hætta á að liðið fari rakleiðis niður aftur.
23. Blackburn Rovers - Blackburn þarf á því að halda að Arnór Sigurðsson haldist heill og sýni sínar bestu hliðar. Síðasta tímabil var erfitt og þetta gæti orðið enn erfiðara.
Athugasemdir