Man Utd og Dortmund vinna að skiptidíl - Osimhen til Chelsea?
   sun 08. maí 2022 18:40
Elvar Geir Magnússon
Bestur í 1. umferð - Gerði sínum gömlu félögum grikk
Luke Rae (Grótta)
Lengjudeildin
watermark
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
watermark
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
„Stórkostlegur í leiknum, tvö mörk gegn sínum gömlu liðsfélögum," skrifaði Kári Snorrason, fréttamaður Fótbolta.net, um Englendinginn Luke Rae í skýrslu um leik Gróttu og Vestra. Luke Rae var valinn maður leiksins og er leikmaður 1. umferðar.

Rae er 21 árs enskur sóknarleikmaður sem spilaði með Tindastóli í 3. deildinni 2020 og svo með Vestra í fyrra þar sem hann skoraði þrjú mörk í Lengjudeildinni. Svo í vetur gekk hann í raðir Gróttu og fer vel af stað í treyju félagsins.

„Luke er afar skemmtilegur leikmaður. Hann er lítill, teknískur, með mikinn hraða og hraðabreytingar. Hann er ósérhlífinn og hræðist ekkert. Hann er markagráðugur og nærist á því að skora mörk. Luke getur leyst af allar fremstu þrjár stöðurnar, sú fremsta er í uppáhaldi hjá honum," segir fótboltaþjálfarinn Óskar Smári Haraldsson, sérfræðingur Fótbolta.net. Óskar var með Rae í Tindastóli.

„Luke kom upprunalega til Íslands fyrir tímabilið 2020. Jay McDonough þáverandi þjálfari Tindastóls fékk Luke til landsins og spilaði hann með Tindastóli í þriðju deild sama ár. Við Sauðkrækingar tókum fljótt eftir því að þarna væri virkilega efnilegur leikmaður á ferð, sem óx með hverri vikunni. Luke féll vel inn í hópinn og var mjög vel liðinn innan liðsins. Luke spilaði með Tindastól það ár og skoraði 18 mörk, samhliða þess að mála hjá Dodda málara."

Vestramenn réðu ekkert við Luke Rae í gær og hann skoraði tvívegis í leiknum eins og áður sagði. Telur Óskar að hann geti spilað í Bestu deildinni í framtíðinni?

„Já, ég tel hann geta það. Hann er að byrja sitt þriðja tímabil á Íslandi, og er ennþá bara 22 ára. Það sem skiptir mestu máli er að honum líði vel og fái traust þjálfarans, sem virðist vera út á Seltjarnarnesi. Hann átti virkilega flottan leik gegn gömlu félögunum í Vestra um helgina og verður skemmtilegt að fylgjast með honum i næstu leikjum," segir Óskar.

„Hann hafði tækifæri á því að spila i efstu deild eftir tímabilið 2020 en var skynsamur og tók skref upp á við á sínum ferli og samdi við Samma og félaga í Vestra fyrir tímabilið 2021."
Athugasemdir
banner
banner