Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeildina: 9. sæti - Afturelding

Magnús tekur við keflinu af Arnari Hallssyni eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari undanfarin tvö tímabil.
Magnús Már Einarsson verður yngsti þjálfari Lengjudeildarinnar þegar hann stýrir Aftureldingu í sumar. Magnús hefur verið aðstoðarþjálfari Aftureldingu síðustu tvö tímabil, en núna er hann tekinn við stjórn liðsins, 31 árs gamall.
Auk þess að vera þjálfari Aftureldingar er Magnús Már annar af ritstjórum Fótbolta.net, en hann mun ekki koma að umfjöllun um Lengjudeildina, eins og síðasta sumar.
Aftureldingu er spáð níunda sæti í Lengjudeildinni í sumar. „Ég held að þetta sé ekkert óeðlileg spá. Það eru mörg góð lið í þessari deild og mörg lið að leggja mikið í sölurnar til að reyna að fara upp í Pepsi-Max deildina," segir Magnús um spána.
Auk þess að vera þjálfari Aftureldingar er Magnús Már annar af ritstjórum Fótbolta.net, en hann mun ekki koma að umfjöllun um Lengjudeildina, eins og síðasta sumar.
Aftureldingu er spáð níunda sæti í Lengjudeildinni í sumar. „Ég held að þetta sé ekkert óeðlileg spá. Það eru mörg góð lið í þessari deild og mörg lið að leggja mikið í sölurnar til að reyna að fara upp í Pepsi-Max deildina," segir Magnús um spána.
„Afturelding var nýliði í deildinni í fyrra og endaði í áttunda sæti þá. Okkur er spáð sæti neðar í ár en markmiðið er að enda ofar en þessi spá segir til um."
Magnús tekur stökkið úr aðstoðarþjálfaranum í aðalþjálfarann hjá Aftureldingu. „Það hefur verið skemmtileg áskorun," segir hann. „Það hjálpar mikið að ég þekki hópinn inn og út eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari undanfarin tvö ár. Það gerði þetta skref mun auðveldara en ella."
„Það eru forréttindi að fá að þjálfa meistaraflokk hjá uppeldisfélaginu og ég mun leggja mig allan fram við að hjálpa Aftureldingu áfram fram á við í sumar. Gengið hefur verið gott undanfarin tvö ár og fótboltaáhuginn hefur aukist mikið í Mosfellsbæ. Öflugir leikmenn hafa komið upp í gegnum yngri flokkana síðastliðinn áratug og það hefur hjálpað til við að gera meistaraflokkinn öflugri."
Hann segir að Mosfellingar komi í góðum gír inn í mótið. „Veturinn var auðvitað frábrugðinn því sem að þekkst hefur hingað til en strákarnir hafa æft vel og koma í góðum gír inn í mótið. Í febrúar unnum við B-deild Fótbolta.net mótsins og í Lengjubikarnum sáust góðir kaflar á móti mjög öflugum andstæðingum."
„Á meðan skipulagðar æfingar voru bannaðar æfðu strákarnir gríðarlega vel og undanfarnar vikur hafa síðan farið í að komast aftur í fótboltaform. Eftirvæntingin er mikil í hópnum fyrir tímabilinu sem framundan er."
Afturelding hefur í vetur bætt við sig ungum íslenskum leikmönnum, ásamt því að félaginu tókst að halda tveimur Spánverjum sem léku með liðinu síðasta sumar, markverðinum Jon Tena og miðjumanninum Alejandro Zambrano.
„Já, við erum ánægðir með hvernig leikmenn við höfum náð að fá inn í liðið. Allir leikmennirnir sem hafa komið til okkar í vetur hafa komið gríðarlega flottir inn í hópinn og staðið sig vel innan sem utan vallar. Það var einnig mjög ánægjulegt að halda Alejandro Zambrano og Jon Tena sem spiluðu með okkur síðari hlutann á síðasta tímabili, þeir hafa fallið vel inn í leikmannahópinn."
„Kjarninn í hópnum hefur verið saman í góðan tíma og tekið miklum framförum undanfarin ár."
Afturelding er að fara inn í sitt annað tímabilið í röð í næst efstu deild eftir að hafa verið lengi þar áður í 2. deild. Markmiðið í Mosfellsbæ í sumar er að bæta ofan á þann grunn sem var lagður á síðustu leiktíð. „Í fyrra varð niðurstaðan áttunda sæti en falldraugurinn bankaði á dyrnar allt tímabilið. Markmiðið er að sjálfsögðu að halda áfram bætingum og enda ofar en á síðasta tímabili," segir Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar.
Athugasemdir