Belgíska fréttakonan Hermien Vanbeveren er mætt hingað til Englands til að fjalla um landslið Belgíu á Evrópumótinu. Hún var í dag komin til Crewe til þess að fræðast meira um íslenska landsliðið.
Fyrsti leikur Íslands í mótinu er auðvitað gegn Belgíu eftir tvo daga. Fréttamaður Fótbolta.net spjallaði við Vanbeveren fyrir utan hótel íslenska landsliðsins í Crewe.
Fyrsti leikur Íslands í mótinu er auðvitað gegn Belgíu eftir tvo daga. Fréttamaður Fótbolta.net spjallaði við Vanbeveren fyrir utan hótel íslenska landsliðsins í Crewe.
Sjá einnig:
Andstæðingar Íslands á EM: Belgía
Hún segir að Belgarnir séu búnar að eiga fínan undirbúning fyrir mótið; þær hafi spilað fjóra æfingaleiki og þar hafi verið margt gott að finna. Liðið hafi unnið leiki gegn veikari andstæðingum en ekki náð að sýna nægilega góða hluti gegn svipuðum eða sterkari andstæðingum.
Það má segja að Ísland og Belgía séu svipuð að styrkeika, íslenska liðið jafnvel aðeins sterkara - ef miðað við heimslista FIFA.
„Við erum frekar efins fyrir mótið en það er mikið sjálfstraust í hópnum hjá leikmönnum og þjálfurum. Þau hafa sagt að metnaðurinn sé að gera betur en fyrir fimm árum og komast í átta-liða úrslitin," segir Vanbeveren.
Belgíski boltinn á uppleið
Belgískur kvennabolti er á uppleið, en hún segir að það sé enn mikill munur á milli Íslands og Belgíu til dæmis.
„Það er mikil hefð á Íslandi, en í Belgíu er kvennaboltinn frekar nýr. Við komumst á okkar fyrsta stórmót fyrir fimm árum og það hefur vakið áhuga. Það er líka mikilvægt að fótboltasambandið er farið að leggja meira púður í að gera kvennaboltann í landinu sterkari. Það byrjaði fyrir átta árum sirka. Ástandið er betra og það er stígandi hjá okkur."
Hún segir að Belgar líti alls ekki á Ísland sem auðveldan andstæðing, þetta verði erfiður leikur þar sem verði hart barist. „Ísland er líklega erfiðasti andstæðingurinn sem við hefðum getað fengið úr fjórða styrkleikaflokki. Ég held að Ísland sé jafnvel með smá forskot því þið eruð með Söru Björk í Juventus, þrjá leikmenn í Bayern München, mikla reynslu og mjög spennandi leikmenn. Þetta verður erfitt og verður mjög jafn leikur held ég. Belgíska liðið verður að vera upp á sitt besta, þetta má ekki vera 80 eða 90 prósent."
Hrædd við löngu innköstin
Aðspurð hvort hún sé hrædd við einhvern leikmann í íslenska liðinu þá nefnir hún Sveindísi Jane Jónsdóttur, kantmann Wolfsburg í Þýskalandi. Sveindís er eldsnögg en það er ekki bara það sem hræðir Belga, löngu innköstin hennar gera það líka. Það eru ekki mörg lið sem eru vön því að verjast löngum innköstum og það getur verið frábært vopn fyrir íslenska liðið.
„Jónsdótir með sín innköst, úff. Hún spilar líka með Wolfsburg og ef hún getur spilað þar, þá er hún hættulegur leikmaður. Sara Björk er líka frábær leikmaður. Janice Cayman, sem var liðsfélagi hennar hjá Lyon, er búin að vera að tala um það að hún sé nýbúin að eignast barn og ekki spilað mikið en samt sem áður sé hún búin að æfa gríðarlega vel og sé í toppstandi."
Athugasemdir