Kolbeinn Birgir Finnsson er tvítugur leikmaður sem getur bæði leyst bakvarðarstöðuna sem og leikið á miðjunni. Hann er í dag á mála hjá Dortmund, þar leikur hann með Dortmund II, varaliðinu.
Kolbeinn var á mála hjá Brentford síðasta vetur og var í sumar lánaður til Fylkis. Hjá Fylki lék hann út júlí en þá sneri hann til Brentford sem seldi hann svo til Dortmund tæpum þremur vikum seinna.
Kolbeinn var á mála hjá Brentford síðasta vetur og var í sumar lánaður til Fylkis. Hjá Fylki lék hann út júlí en þá sneri hann til Brentford sem seldi hann svo til Dortmund tæpum þremur vikum seinna.
Dortmund er stórlið í Þýskalandi og því vöktu félagaskiptin mikla athygli. Hvernig fer leikmaður sem er á láni hjá Fylki frá Brentford til stórliðs í Þýskalandi? Kolbeinn lék æfingaleik gegn Dortmund í janúar þar sem hann heillaði menn hjá Dortmund.
Nánar verður spurt Kolbein út í tímann hjá Dortmund í grein sem birtist á morgun. Í þessari grein verður spurt út í Groningen, Brentford og endað á A-landsliðskallinu sem kom í upphafi árs.
Kolbeinn hefur leikið tvo A-landsliðsleiki og er á þessum tímapunkti lykilmaður í U-21 árs landsliðinu þar sem hann hefur leikið tólf leiki.
Fótbolti.net hafði samband við Kolbein í síðustu viku og spurði leikmanninn út í ferilinn.
Spilaði fimmtán ára með Fylki
Við byrjum árið 2015 þegar Kolbeinn var fimmtán ára. Þá var hann að fá fyrstu tækifærin í liði Fylkis í Pepsi-deildinni. Hann varð yngsti leikmaðurinn í sögu Fylkis til að spila í efstu deild. Það ár var hann í tímamóta viðtali hjá Fótbolti.net.
Þar ræddi hann um fyrstu skrefin hjá Fylki og sagðist ekki vera að drífa sig út til félags erlendis. Seinna það ár gekk hann í raðir Groningen í Hollandi. Hvernig gerir Kolbeinn upp árið 2015?
„Árið 2015 var mjög skemmtilegt og gott ár fyrir mig," sagði Kolbeinn við Fótbolta.net
,Ég fékk að spila nokkra leiki með Fylki í Pepsi-deildini aðeins 15 ára gamall undir stjórn Hemma Hreiðars (Hermanns Hreiðarssonar, þáverandi þjálfara Fylkis)."
„Þó að ég hafi sagt á þeim tíma að ég væri ekkert að flýta mér út var það samt allan tímann planið ef ég gæti. Það voru nokkur lið sem höfðu sýnt áhuga á mér eins og AZ og FCK sem voru félög sem ég hafði farið á reynslu til."
„Groningen þrýsti mikið á að fá mig og snemma um sumarið vissi ég svona nokkurn veginn að ég væri á leiðinni til þeirra og ákvað að kýla á það."
Ef Kolbeinn lítur til baka, hvað heillaði við Groningen á þeim tímapunkti?
„Eftir á að hyggja er erfitt að segja hvort það hafi verið rétt ákvörðun en klárlega mikill lærdómur, ég hafði farið tvisvar á reynslu til Groningen og fannst þetta vera klúbbur sem myndi henta mér vel, ekki of stór og mér leist vel á allar aðstæður og borgina."
Þurfti að læra að vera atvinnumaður
Hvernig gerir Kolbeinn upp tímann hjá Groningen? Hann var þar á árunum 2016-2018.
„Fyrsta árið úti var erfitt, maður var búinn að sjá þetta allt fyrir sér hvernig þetta yrði en það tekur tíma að venjast nýjum aðstæðum og hreinlega að læra að vera atvinnumaður í öðru landi."
„Eftir það var mér farið að ganga mjög vel. Ég er kallaður upp í varaliðið þegar vinstri bakvörðurinn þar meiðist og ég er látinn spila nokkra leiki til að byrja með í bakverðinu. Ég var áfram látinn spila í bakverðinum í flestum leikjum út leiktíðina. Ég var ekki sáttur við það á þeim tíma og vildi því fara."
Annað hvort Brentford eða heim til Íslands
Samningurinn hjá Groningen rann út sumarið 2018. Það sumar gekk Kolbeinn í raðir Brentford á Englandi. Af hverju varð Brentford fyrir valinu?
„Á þeim tímapunkti (þegar Kolbeinn vildi fara frá Groningen) hafði Brentford sýnt mér mikinn áhuga og vildu menn hjá þeim fá mig strax."
„Ég þurfti að ákveða hvort ég færi heim að spila í Pepsi og sjá hvert það myndi leiða mig eða fara til Brentford."
„Brentford er að gera hlutina öðruvísi en flest lið og það heillaði mig."
Lærði mikið hjá Brentford
Kolbeinn spilaði með varaliði Brentford á síðustu leiktíð. Hvernig var að spila enga keppnisleiki og hvernig sér Kolbeinn tímann hjá Brentford þegar hann lítur til baka?
„Ég sá þetta fyrir mér sem góðan stað til að bæta mig og sýna mig sem gekk eftir. Maður var líka nálægt aðalliðinu og ég fékk einu sinni að vera á bekk í FA cup en ég hefði þó viljað fá fleiri sénsa, þeir voru af skornum skammti."
„Ég spilaði einungis æfingaleiki yfir tímabilið. Það var öðruvísi og gat verið erfitt þegar leið á. Þetta voru mismunandi leikir víða um heim og mis áhugaverðir. Það voru þó einnig stórir leikir. Ég spilaði t.d. með aðalliðinu við Tottenham á undirbúningstímabilinu og svo á Anfield við varalið Liverpool, það voru skemmtilegir leikir."
,.Ég var klárlega að læra mikið á þessum tíma. Það er gaman að fá að spila á móti liðum frá mismunandi þjóðum."
„Allar aðstæður þarna voru mjög góðar og mikið lagt upp með að læra og bæta sig í hverjum leik, það var sest niður eftir alla leiki og farið vel yfir hvað var hægt að gera betur en úrslitin ekki eins stór partur."
Nánar var rætt við Kolbein um Brentford í útvarpsviðtali í vor.
Kom á óvart að vera valinn í landsliðið
Í janúar á þessu ári var Kolbeinn valinn í A-landsliðið fyrir leiki gegn Svíþjóð og Eistlandi. Kolbeinn var kallaður inn í hópinn í stað Kára Árnasonar sem dróg sig úr hópnum vegna meiðsla.
Kolbeinn spilaði 12 mínútur í sínum fyrsta landsleik, gegn Svíum og allan leikinn gegn Eistum. Hvernig var að fá kallið og hvernig var að spila leikina?
„Það að fá kallið í A-landsliðið kom mér mikið á óvart. Það gaf mér mikla innspýtingu í að halda áfram því sem ég var að gera. Það var gaman að sjá í leikjunum að maður gæti alveg staðið sig á þessu 'leveli'."
„Leikirnir tveir voru góð reynsla og gerðu mig ennþá hungraðari í að ná lengra," sagði Kolbeinn við Fótbolta.net
Á morgun segir Kolbeinn frá tímanum með Fylki í sumar, Dortmund og U-21 árs landsliðinu.
Athugasemdir