Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
   þri 09. júní 2020 13:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bjarni Jó: Magnað að þetta lið skuli þó vera í Lengjudeildinni
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeildina: 8. sæti - Vestri
Bjarni Jóhannsson, þjálfari Vestra.
Bjarni Jóhannsson, þjálfari Vestra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik hjá Vestra á síðustu leiktíð.
Úr leik hjá Vestra á síðustu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarni er að fara í sitt þriðja tímabil með Vestra.
Bjarni er að fara í sitt þriðja tímabil með Vestra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það er góður lífsstíll að mæta á fótboltaleiki'
'Það er góður lífsstíll að mæta á fótboltaleiki'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Lífið er allt að koma til hérna fyrir vestan, grasið er að grænka og aðstæður eru allar að braggast," segir Bjarni Jóhannsson, þjálfari Vestra, sem spáð er áttunda sæti í Lengjudeild karla í sumar.

Vestri lenti í öðru sæti 2. deildar á síðustu leiktíð og eru því nýliðar í Lengjudeildinni í sumar. Oft er nýliðum spáð falli, en fyrirliðar og þjálfarar deildarinnar hafa meiri trú á lærisveinum Bjarna Jó en það. „Menn hafa oft miðað við vetrarmót þegar menn hafa verið að spá og spekúlera. Það fór fyrir ofan garð og neðan. Ég held að þetta sé nú ekki óeðlileg spá fyrir þessa deild."

„Oftast er nýliðum spáð frekar neðarlega í deildinni," segir Bjarni. „Þessi spá kemur mér ekki á óvart. Miðað við það sem ég sá í vetur til liðanna í deildinni þá finnst mér mjög líklegt að deildin skiptist í tvennt. Síðan eru alltaf tvö lið sem spáð er neðarlega sem koma á óvart. Það hefur verið reynslan í gegnum árin og vonandi verðum við eitt af þessum tveimur liðum."

Bjarni segist vonast til þess að stýra Vestra frá fallbaráttunni. „Ég vil afreka sem mest. Ég hef alla tíð verið þannig að mér finnst alltaf óþægilegt að setja svaka markmið því fótbolti er leikur hins óvænta líka."

„Ég vil sjá okkur forðast fallbaráttu. Ef okkur tekst það fyrri hluta móts þá má alveg kíkja á að setja einhver æðri markmið."

Undirbúningstímabilið hefur verið furðulegt vegna kórónuveirufaraldursins. Frá mars og þangað til í maí gátu lið lítið sem ekkert æft saman. Bjarni er reynslumikill þjálfari, á rúman 30 ára þjálfaraferil að baki, og hann hefur ekki upplifað slíkt áður. „Það held ég ekki. Það hefur einn og einn leikmaður fengið matareitrun og eitthvað slíkt, en þetta er nú það mest 'tough' sem menn hafa lent í. Ég er búinn að vera það lengi í þessu að þetta minnti óneitanlega á það þegar ég var ungur drengur og við hlupum bara í átta mánuði og svo eru skórnir reimaðir á í maí. Þetta hefur verið hálfgert 'flashback' til áranna, hvað eigum við að segja, 1970-80."

„Áður en veiran flaug til Ísland þá vorum við að spila allt í lagi miðað við þann mannskap sem kominn var til landsins. Við eru með erlenda leikmenn sem hafa verið að tínast til landsins. Þess vegna er erfitt að gera sér grein fyrir á þessari stundu hverjir styrkleikar okkar verða, en við vorum að spila betur í vetur en ég átti von á. Við höfum verið að æfa mjög vel þannig að ég er hæfilega bjartsýnn á gott gengi í sumar."

„Hópurinn er klár. Eins og staðan er í dag þá eigum við bara eftir að fá Isaac Freitas til okkar, hann mun koma frá Brasilíu upp úr miðjum mánuði. Þá er þetta klárt. Ég er mjög sáttur við hópinn. Við erum reyndar með tvo í sóttkví ennþá, einn losnar í vikunni. Þetta er allt að koma," segir í Bjarni.

Hann kemur inn á það að í leikmannahópi Vestra eru nokkrir útlendingar, en þá má einnig finna spræka heimamenn. Það er mikilvægt að hafa þá leikmenn. „Það hefur nú oft verið flótti af ungum leikmönnum héðan og við misstum einn í fyrra (Þórð Gunnar Hafþórsson) í Fylki."

„Það þekkja allir sögu Matta Vill, Emils Páls og Daða Freys Arnarssonar. Þetta eru strákar sem yfirgefa svæðið snemma því þeir eru efnilegir og góðir í fótbolta. Auðvitað er alltaf erfitt að sjá á eftir þessum drengjum. Hins vegar er hérna kjarni stráka eins og Pétur, Elmar, Friðrik, Viktor og Daníel. Það er mjög mikilvægt að hlúa vel að því sem við höfum. Svo eru gerðar kröfur á að menn nái árangri, menn vilja vera ofarlega í deildum."

„Það er reyndar alveg magnað að þetta lið skuli þó vera í Lengjudeildinni því aðstaðan er engin og við getum ekki iðkað fótbolta nema á parketi í einhverja sjö mánuði á ári. Í vetur þá var þetta ónýta gerigras sem er hérna á kafi í snjó frá byrjun desember fram í mars. Einu skiptin sem við reimuðum á okkur fótboltaskó var það þegar við fórum í Fótbolta.net mótið og Lengjubikarinn."

„Auðvitað höfum við reynt að nýta tímann vel núna þegar grasið grænkar. Við höfum sagt það í gríni að tvö síðustu árin hafa verstu tímabilin okkar verið frá byrjun maí fram í miðjan júní. Því skeiði er lokið núna þegar mótið byrjar núna," sagði Bjarni léttur.

Að lokum er Bjarni með þessi skilaboð fyrir stuðningsmenn Vestra: „Ég vona að Vestramenn sjái ástæðu til að styðja sitt lið. Ég vil að Vestramenn komi á leiki og styðji við bakið á strákunum. Við erum að spila við þekkt lið á Íslandi í dag, það verður mikið meira fjör og meiri 'standard' á fótboltanum hér í sumar en áður. Svo sendi ég brottfluttum Ísfirðingum og Bolvíkingum kveðju og skora á þá að koma á leiki í bænum og styðja við bakið á okkur."

„Það er góður lífsstíll að mæta á fótboltaleiki," sagði hinn þaulreyndi Bjarni Jóhannsson sem er að fara inn í sitt þriðja tímabil sem þjálfari Vestra.

Sjá einnig:
Miðjan - Bjarni Jó fer yfir rúmlega 30 ára þjálfaraferil
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner