Arnar Páll Garðarsson mun hætta sem þjálfari kvennaliðs KR eftir tímabilið en þetta herma heimildir Fótbolta.net.
Arnar Páll byrjaði tímabilið sem aðstoðarþjálfari KR en varð svo aðalþjálfari ásamt Christopher Harrington eftir að Jóhannes Karl Sigursteinsson ákvað að hætta snemma sumars.
Arnar Páll þjálfaði áður hjá Fjölni og Val. Hann var lengi vel þjálfari Vængja Júpiters sem er venslafélag Fjölnis. Í fyrra var hann þjálfari KH í 2. deild kvenna.
Hann mun stýra KR út tímabilið en ekki lengur en það. Óvíst er hvort Harrington verði áfram.
KR er sem stendur á botni Bestu deildarinnar en liðið á leik gegn toppliði Vals í kvöld. Hefst hann klukkan 17:00 og verður auðvitað í beinni textalýsingu.
Athugasemdir