Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 10. júlí 2019 10:42
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Haukur Páll: Þeir líklegri en það getur allt gerst í fótbolta
Haukur Páll Sigurðsson.
Haukur Páll Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslandsmeistarar Vals hefja leik í forkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld.
Íslandsmeistarar Vals hefja leik í forkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld.
Mynd: Hulda Margrét
Það er framundan stórleikur hjá Val í kvöld. Liðið mætir slóvensku meisturunum í Maribor í fyrstu umferð í forkeppni Meistaradeildarinnar.

„Þessi leikur leggst vel í mig og liðið. Við fengum örugglega eitt af erfiðustu liðunum sem við gátum fengið úr þessum potti, en heilt yfir leggst þetta bara vel í mig," segir Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, við Fótbolta.net.

FH mætti Maribor 2017 en slóvensku meistararnir unnu báða leikina 1-0 og einvígið samtals 2-0. Liðið komst svo í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

„Þeir eru líklegri til að fara áfram úr þessu einvígi. Ég held að allir geti verið sammála um það, en það getur allt gerst í fótbolta. Við erum staðráðnir í að eiga það góðan leik í dag að við eigum möguleika á að fara áfram úr þessu einvígi þegar við eigum seinni leikinn eftir."

Sýndu að þeir geta strítt liðum sem eiga að teljast betri
Valur sýndi það á síðasta ári að liðið getur staðið í liðum sem eiga að teljast betri. Valur mætti norska liðinu Rosenborg í forkeppni Meistaradeildarinnar í fyrra og var þar hársbreidd frá því að slá norsku meistarana úr leik.

Í því einvígi var Valur á leiðinni áfram þegar uppbótartíminn hófst, en í uppbótartímanum fékk Rosenborg gefins vítaspyrnu frá dómaranum.

Sjá einnig:
Óli Jó: Hann dæmdi okkur út úr þessari keppni

„Já klárlega. Á móti Rosenborg og líka á móti Sheriff (seinna meir í Evrópudeildinni). Það er líka lið sem hefur komist í riðlakeppnir undanfarin ár. Við vorum hársbreidd frá því að slá út Rosenborg í fyrra. Þetta er alveg hægt og við ætlum okkur að reyna að fara áfram úr þessu einvígi."

Valur er á siglingu
Síðustu dagar hafa verið góðir fyrir Val. Liðið hefur unnið þrjá leiki í röð í Pepsi Max-deildinni eftir erfiða byrjun og er danski framherjinn Patrick Pedersen kominn aftur til liðsins. Það er frábært fyrir Val enda var hann besti leikmaður Pepsi-deildarinnar í fyrra.

„Það er alltaf betra að vinna leiki en að koma inn í svona verkefni með nokkra tapleiki á bakinu. Það er klárlega meira sjálfstraust í Valsliðinu í dag en í upphafi móts. Það er klárlega jákvætt," segir Haukur Páll.

Hann segir að það sé mikil stemning í hópnum fyrir leiknum á morgun.

„Það er mikil stemning. Það er alltaf tilhlökkun þegar Evrópukeppnin nálgast. Það er mjög gaman að taka þátt í henni og reyna að gera einhverja hluti. Eins og flestallir segja styttist í það að íslenskt lið fari alla leið í Evrópukeppninni. Ég held að öll þau lið sem taki þátt í henni í ár ætli sér það."

„Við viljum ná árangri og þetta er einn hluti af því. Það þarf margt að spila inn í til að það markmið takist. Við þurfum að eiga algjöra tvo toppleiki til að fara áfram gegn Maribor. Það er klárt," sagði Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals.

Leikur Vals og Maribor hefst í kvöld klukkan 20:00 og verður í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner