Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
banner
   fim 11. júní 2020 14:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jón Sveins: Verður vorbragur þó vel sé liðið á sumar
Jón Sveinsson, þjálfari Fram.
Jón Sveinsson, þjálfari Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fram er spáð sjötta sæti.
Fram er spáð sjötta sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Þ. Sveinsson er að fara inn í sitt annað tímabil sem aðalþjálfari meistaraflokks karla hjá Fram, sem spáð er sjötta sæti í Lengjudeildinni í sumar.

„Það kemur mér ekki endilega óvart. Þetta er bara spá og miðað við niðurstöðu síðasta árs og eitthvað svoleiðis þá er þetta kannski bara eðlilegt," segir Jón.

Jón var á dögunum gestur í hlaðvarpsþættinum Niðurtalingunni á Fótbolta.net þar sem hann sagði að Fram væri félag sem ætti að vera í efstu deild, en Fram hefur verið í næst efstu deild síðan 2015. Það má búast við hörkukeppni í Lengjudeildinni í sumar.

„Þrátt fyrir þessa spá og hvað henni líður þá tel ég að það séu ansi mörg lið sem geri tilkall til þess að fara upp. Við erum klárlega eitt af þeim og teljum okkur hafa mannskap og styrk til þess að berjast um að fara upp," segir Jón. „Ég hugsa að þetta tímabil verði skrítið, þetta mun velta á breidd hópsins. Það verður þétt og mikið spilað. Að komast svona þokkalega klakklaust í gegnum þetta varðandi meiðsli, leikbönn og annað þá held ég það muni skipta sköpum þegar upp er staðið."

„Við höfum verið að stækka og breikka hópinn. Við höfum reynt að manna það sem við misstum í fyrra og svo eru leikmenn sem spiluðu lítið í fyrra sem spiluðu lítið í fyrra vegna meiðsla, reynslumiklir menn sem eru til taks í dag."

Fram hefur bætt við sig öflugum leikmönnum, þar á meðal Alberti Hafsteinssyni og Þóri Guðjónssyni sem koma báðir með reynslu úr Pepsi Max-deildinni. „Við misstum nokkra öfluga póst en fengum á móti öfluga leikmenn. Það hefur gengið vel og rúmlega það að styrkja hópinn. Svo eru eins og ég segi Orri Gunnars og Hlynur (Atli Magnússon) sem misstu meira og minna af síðasta tímabili vegna meiðsla, þeir eru í betra standi í dag og eins og nýir leikmenn. Við horfum þokkalega bjartsýnir á sumarið framundan."

Jón býst ekki við að styrkja leikmannahópinn meira. „Við vorum tiltölulega fljótlega búnir að ná í þá menn sem við töldum okkur þurfa. Það hefur ekkert breyst í vetur eða breytt þeirri skoðun okkur að við séum vel mannaðir."

Undirbúningstímabilið hefur verið sérstakt í ljósi kórónuveirufaraldursins. Frammarar koma vel undan faraldrinum. „Menn hafa alla vega ekki veikst og það er ekki að hafa áhrif á okkur. Við erum í þokkalegu standi, það mátti sjá á mannskapnum þegar við mættum aftur að þeir hefðu hugsað vel um sig. Við komum ágætlega undirbúnir. Auðvitað höfum við ekki spilað mikið fótbolta og maður reiknar með því að það verði vorbragur, þó að vel sé liðið á sumar, í fyrstu umferðunum. Svona rétt á meðan menn eru að slípast til."

Fram vann 4-0 sigur á Álftanesi í bikarnum á dögunum og mætir Haukum í öðrum bikarleik á laugardag. „Leikurinn gegn Álftanesi spilaðist fínt. Við horfðum á hann sem hluta af undirbúningi fyrir Íslandsmót. Við nálguðumst hann svolítið að því leyti. Það getur verið flókið að spila gegn liði í neðri deildum sem eru oft tilbúin að leggja meira á sig en liðið sem á að vera sterkara. Ef þú ert ekki tilbúinn að mæta því þá lendirðu í vandræðum. Við gerðum það og sá leikur var aldrei nein vandræði þannig lagað séð. Við misstum mann út af, en við vorum mjög 'solid'."

„Ég vonast til þess að þetta verði frábært fótboltasumar. Ég vonast til að fólk flykkist á vellina og noti sumarið til að viðra sig á fótboltavöllum landsins því það verður fullt af framboði og fullt af spennandi hlutum í gangi," sagði Jón Sveinsson, þjálfari Fram, sem ætla sér að vera með í baráttunni um að fara upp.

Hér að neðan má hlusta á Jón í Niðurtalningunni.
Niðurtalningin - Spá fyrir Lengjudeildina og þjálfari Fram
Athugasemdir
banner
banner
banner