sun 12. janúar 2020 18:31
Brynjar Ingi Erluson
England: Aguero bætti met Henry í stórsigri á Aston Villa
Sergio Aguero skoraði þrennu og bætti met í leiðinni
Sergio Aguero skoraði þrennu og bætti met í leiðinni
Mynd: Getty Images
Aston Villa 1 - 6 Manchester City
0-1 Riyad Mahrez ('18 )
0-2 Riyad Mahrez ('24 )
0-3 Sergio Aguero ('28 )
0-4 Gabriel Jesus ('45 )
0-5 Sergio Aguero ('57 )
0-6 Sergio Aguero ('81 )
1-6 Anwar El Ghazi ('90 , víti)

Englandsmeistarar Manchester City fögnuðu 6-1 stórsigri á Aston Villa í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni en leikurinn fór fram á Villa Park, heimavelli Aston Villa.

Það sást strax hvað í stefndi er Riyad Mahrez kom City yfir á 18. mínútu en hann keyrði í átt að markinu og skoraði örugglega framhjá Orjan Nyland sem stóð á milli stanganna í dag.

Alsíringurinn bætti við öðru sex mínútum síðar. Danny Drinkwater kom á láni til Aston Villa frá Chelsea á dögunum og spilaði sinn fyrsta leik í dag en í öðru marki City þá tókst David Silva að stela boltanum af honum og leggja hann fyrir Mahrez sem skoraði.

Sergio Aguero var næstur á blað en þrumaði boltanum í netið eftir stoðsendingu frá Kevin De Bruyne. Belgíski miðjumaðurinn var aftur á ferðinni undir lok fyrri hálfleiks. Hann átti frábæra sendingu inn á Gabriel Jesus sem kláraði af stuttu færi.

Staðan í hálfleik 4-0 fyrir City en leikmenn liðsins voru þó ekki búnir. Á 58. mínútu ákvað Aguero að skora annað mark sitt og slá þar með markamet hjá erlendum leikmanni í ensku úrvalsdeildinni en Thierry Henry, fyrrum framherji Arsenal, átti fyrra metið.

Argentínski framherjinn náði að bæta annað met á 81. mínútu er hann gerði þriðja markið en hann hefur nú skorað flestar þrennur í ensku úrvalsdeildinni. Hann er kominn með tólf þrennur, einni meira en Alan Shearer.

Anwar El Ghazi minnkaði muninn fyrir Villa úr vítaspyrnu undir lok leiks. Lokatölur 6-1 fyrir City sem er í öðru sæti deildarinnar með 47 stig eða 14 stigum á eftir Liverpool.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner