Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   fös 12. júní 2020 17:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Siggi Höskulds: Leikmannahópurinn gríðarlega sterkur
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeildina: 5. sæti - Leiknir R.
Lengjudeildin
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis. Hann er brattur fyrir tímabilinu.
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis. Hann er brattur fyrir tímabilinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr æfingaleik Leiknis og Kórdrengja á dögunum.
Úr æfingaleik Leiknis og Kórdrengja á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Siggi er að fara inn í sitt fyrsta heila tímabil sem þjálfari Leiknis.
Siggi er að fara inn í sitt fyrsta heila tímabil sem þjálfari Leiknis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Spáin kemur mér ekki á óvart, nei," segir Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis í Breiðholti en liðinu er spáð fimmta sæti Lengjudeildar karla.

„Það var nokkuð ljóst að ÍBV, Keflavík og Grindavík yrði spáð efstu þremur sætunum og svo var bara spurning um hvernig okkur, Þór og Fram yrði raðað niður í næstu þrjú sæti," segir Sigurður Heiðar sem er að fara inn í sitt fyrsta heila tímabil sem þjálfari Leiknis. Hann tók við á miðju síðasta tímabili af Stefáni Gíslasyni þegar Stefán fór til Belgíu að þjálfa.

Undir stjórn Sigurðar, sem var aðstoðarþjálfari Leiknis þegar síðasta tímabil byrjaði, náði Leiknir að klífa upp töfluna og endaði að lokum í þriðja sæti deildarinnar. Þetta undirbúningstímabil hefur verið lengra en venjulega vegna kórónuveirufaraldursins.

Um veturinn og undirbúningstímabilið segir Siggi: „Veturinn hefur gengið vel, en ekki áfallalaust. Tveir leikmenn sem fengnir voru í vetur tóku þá ákvörðun að hætta, Ásgeir Þór Magnússon, markvörður, og Alfreð Már Hjaltalín. Þeir voru báðir hugsaðir sem mikilvægir póstar í okkar liði svo að það voru ákveðin vonbrigði. Hópurinn var þó töluvert stór fyrir, við fórum snemma á leikmannamarkaðinn og því var hópurinn tilbúinn nokkuð snemma."

„Veðurfarslega var veturinn einn sá erfiðasti sem ég man eftir og setti það oft of mikinn svip á æfingar og áætlanir okkar þjálfarana. Heilt yfir æfði liðið samt vel, úrslit og spilamennska á undirbúningstímabili svo til á pari við væntingar og því förum við brattir inn í tímabilið."

„Kórónuveiran hefur að sjálfsögðu haft mikil áhrif á öll lið. Æfingastoppið skellur á rétt þegar fínpússun á leikstíl og taktík átti að eiga sér stað, að ógleymdum lokahnikk í líkamlega þættinum. Mér fannst Leiknisliðið þó komið á mjög góðan stað fyrir veiruna og hafa leikmennirnir staðið sig einstaklega vel þennan stutta tíma sem við höfum haft fyrir mót til að gera sig tilbúna í átök sumarsins."

Siggi er ánægður með það hvernig hefur tekist að styrkja leikmannahópinn. „Eins og ég segi, þá fórum við tiltölulega snemma á leikmannamarkaðinn. Frá síðasta tímabili missum við marga mjög öfluga leikmenn og stóra persónuleika úr klefanum. Við þurftum því að bregðast snöggt við, finna leikmenn sem pössuðu inn í okkar lið og það hefur gengið vel. Leikmennirnir sem hafa komið inn hafa smellpassað inn í leikmannahópinn og lagt mikið á sig til að sýna að þeir eigi heima í Leiknisliðinu."

„Eftir að Ásgeir markvörður hætti höfum við verið í leit að markmanni til að berjast um stöðuna við Viktor og það hefur ýmislegt gengið á í þeirri leit. Viktor er ungur markmaður með bjarta framtíð í Leiknistreyjunni og svo hefur Atli Jónasson komið eins og stormsveipur inn hjá okkur síðustu vikur og staðið sig frábærlega. Á miðvikudaginn skrifaði svo hollenskur markmaður, Guy Smit, undir samning við félagið svo markvarðarstaðan ætti að vera virkilega vel mönnuð."

Hann segir það mikla áskorun að fara inn í þetta tímabil sem aðalþjálfari Leiknis. „Þetta er að sjálfsögðu mikil áskorun fyrir mig, en ég er líklega með besta þjálfarteymi sem ég gæti hugsað mér með mér í þeim Hlyni Helga aðstoðarþjálfara og Val Gunnars markmannsþjálfara sem gerir þetta töluvert auðveldara og skemmtilegra. Leikmannahópurinn er að mínu mati gríðarlega sterkur með góða blöndu af ungum og reynslumiklum leikmönnum. Við sem lið erum því virkilega spenntir fyrir tímabilinu og að sýna hvað í okkur býr."

Mikil tilhlökkun er í Breiðholtinu fyrir tímabilinu. Deildin hefst eftir viku. „Við finnum fyrir mikilli tilhlökkun í Breiðholtinu, bæði hjá liðinu og stuðningsmönnum. Leiknisljónin eru dugleg að peppa liðið á samfélagsmiðlum, ársmiðasala gengur vel og nú er það bara í höndum liðsins að trekkja stuðningsmenn að með góðri frammistöðu á Domusnovavellinum í sumar," segir Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis, sem ætlar sér að vera í toppbaráttunni í sumar.
Athugasemdir
banner