Stórliðin berjast um Joao Gomes - Mikill áhugi á Rashford - Hvert fer Kolo Muani?
   fös 13. apríl 2018 18:03
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Bjarni Þór lamaður tímabundið - „Hefði verið betra að fótbrotna"
Er bjartsýnn á að spila eitthvað í sumar
Bjarni í leik með FH á undirbúningstímabilinu.
Bjarni í leik með FH á undirbúningstímabilinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarni Þór Viðarsson, miðjumaður FH, mun missa af fyrstu leikjum liðsins í Pepsi-deildinni í sumar. Óvíst er hvort hann muni eitthvað spila en hann er sjálfur bjartsýnn.

Bjarni fór úr axlarlið í leik með FH gegn Selfossi í Lengjubikarnum í febrúar og hefur verið frá síðan þá.

„Án þess að vera eitthvað dramatískur þá er ég lamaður tímabundið í handleggnum vinstra megin," segir Bjarni í samtali við Fótbolta.net í dag. „Ég lenti í slysi gegn Selfossi í Lengjubikarnum og fór úr axlarlið."

„Það eru tveimur mánuðir síðan þetta gerðist og ég er kominn með kraft í höndina en fyrsta mánuðinn gat ég ekkert notað höndina. Þetta er allt á réttri leið svo sem."

„Er að reyna að gera allt sem ég get"
Þetta hefur skiljanlega tekið á fyrir Bjarna en hann kom heim úr atvinnumennsku fyrir sumarið 2015 og gekk þá til liðs við uppeldisfélag sitt FH. Bjarni, sem er þrítugur, missti af fyrri hluta síðasta tímabils vegna meiðsla en hann kom við sögu í átta leikjum í Pepsi-deildinni með Hafnarfarðarfélaginu.

Síðustu mánuðir hafa skiljanlega tekið á fyrir Bjarna, sérstaklega í ljósi þess að óvissan er mikil.

„Læknarnir vita ekkert. Höggið var það slæmt að taugarnar fóru í eitthvað rugl. Fyrst þegar ég talaði við læknanna þá sögðu þeir sex til átta vikur, það eru að verða komnar átta vikur og nú eru þeir búnir að lengja þetta upp í 12 vikur."

„Ég býst við því að vera eitthvað með í sumar en ég veit það ekki almennilega. Þetta er óþægilegt, þetta er ekki eins og fótbrotna, þú veist ekki neitt."

„Ég er að reyna að gera allt sem ég get. Ég er kominn út í hita til þess að fá hita í öxlina og æfa í hita."

„Þetta á ekki að geta gerst í íþróttum"
Eins og fyrr segir þá getur Bjarni hreyft höndina núna, hann er kominn með kraft í höndina en hann er ekki alveg kominn með stjórn á fingrunum sínum.

„Ég er ekki með 100% stjórn á fingrunum. Ég get rétt gripið í hluti og annað. Það er verið að bíða eftir að það komi til baka. Ég þarf að fara varlega og fá grænt ljós hjá taugalækninum þegar stjórnin kemur til baka til þess að vera viss um að taugarkerfið sé komið í gott lag svo það gerist ekki eitthvað meira."

Bjarni segir að það sé mjög erfitt að útskýra það sem gerðist.

„Það er mjög erfitt að útskýra þetta. Þetta gerðist fyrir tveimur mánuðum en eftir að þetta gerðist fór ég upp á sjúkrahús og öxlinni var kippt í lið aftur. Á sjúkrahúsinu var sagt við mig að það tæki nokkra klukkutíma að fá kraft aftur."

„Þetta gerist þannig að ég fer upp í skallabolta og lendi mjög illa. Þetta á ekki að geta gerst í íþróttum. Ég hef verið hjá reyndum taugalæknum og skurðlæknum og þeir hafa ekki oft séð þessi meiðsli áður, bara tvisvar eða þrisvar."

„Þeir spurðu mig hvort ég hefði verið upp í stiga eða í einhverjum slagsmálum," segir Bjarni.

Hefði verið betra að fótbrotna
Bjarni er orðinn leiður á óvissunni í kringum meiðslin og vill meina að það hefði verið betra að fótbrotna.

„Ég er nokkuð bjartsýnn á að þetta komi til baka, þetta er hægt og rólega að koma til baka. Ég get hlaupið og gert nokkuð mikið en ég get ekki farið inn í einvígi eins og er. Ég þarf að bíða með það."

„Þetta eru frekar leiðinleg meiðsli. Það hefði verið betra að fótbrotna í staðinn fyrir þessa óvissu."

„Það þýðir samt ekkert annað en að vera jákvæður."

Fyrsti leikur FH í Pepsi-deildinni verður gegn Grindavík suður með sjó þann 28. apríl næstkomandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner