Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 14. júní 2020 15:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Siggi Raggi: Mjög lærdómsríkt ferli fyrir okkur báða
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeildina: 3. sæti - Keflavík
Lengjudeildin
Eysteinn Húni Hauksson og Sigurður Ragnar Eyjólfsson stýra Keflavík í sumar.
Eysteinn Húni Hauksson og Sigurður Ragnar Eyjólfsson stýra Keflavík í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurður Ragnar er fyrrum þjálfari kvennalandsliðs Íslands og Kína.
Sigurður Ragnar er fyrrum þjálfari kvennalandsliðs Íslands og Kína.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr æfingaleik Keflavíkur og Vals á dögunum.
Úr æfingaleik Keflavíkur og Vals á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aðalþjálfararnir tveir.
Aðalþjálfararnir tveir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keflavík breytir til og verður með tveggja þjálfara kerfi í sumar; tvo aðalþjálfara. Eysteinn Húni Hauksson hefur stýrt Keflavík síðastliðið eitt og hálft ár, en núna fær hann Sigurð Ragnar Eyjólfsson með sér í verkefnið.

Sigurður Ragnar er fyrrverandi þjálfari kvennalandsliðs Íslands og Kína meðal annars. Þá hefur hann á þjálfaraferli sínum verið aðstoðarþjálfari Lilleström í Noregi í tvö ár og þjálfað ÍBV í efstu deild karla.

Keflavík er spáð þriðja sæti í Lengjudeildarinnar í sumar eftir að hafa lent í fimmta sæti í fyrra. „Við höfum átt góðan vetur og spáin kemur kannski ekki rosalega mikið á óvart. Ég held að þetta verði mjög jafnt mót og það verða mörg mjög góð lið," segir Sigurður Ragnar, annar af aðalþjálfurum Keflavíkur.

„Það eru mörg lið sem stefna upp og hafa gefið það út að þau stefni upp. Það mun ekki muna mörgum stigum á þeim liðum sem fara upp og þeim liðum sem eru þar fyrir neðan. Vonandi verðum við þarna í baráttunni."

Þegar litið er yfir deildina þá virðist hún vera mjög sterk og hægt að gera ráð fyrir því að baráttan um sæti í efstu deild verði mjög hörð. „Mér finnst deildin mjög sterk og ef þú skoðar félögin í deildinni eru þar mörg félög sem manni finnst eiga heima í Pepsi Max-deildinni, og hafa verið í efstu deild undanfarin ár eða áratug. Það eru stór félög í þessari deild og það er hægt að taka dæmi um Þór, Víking Ólafsvík, Leikni Reykjavík, Keflavík, ÍBV, Grindavík, Fram - þetta hafa í gegnum tíðina verið sigursæl félög með fjölmennt yngri flokka starf og sómað sér vel í efstu deild."

Sigurður Ragnar var ráðinn inn til Keflavíkur í október á síðasta ári eftir að Milan Stefán Jankovic hætti sem aðstoðarþjálfari liðsins og fór aftur til Grindavíkur. „Milan Stefán Jankovic hætti sem aðstoðarþjálfari hjá Eysteini og fór og gerðist yfirmaður knattspyrnumála hjá Grindavík. Þá losnaði staða hjá Keflavík og Eysteinn hringdi í mig og spurði hvort ég vildi koma í þetta með sér. Ég var til í það."

„Við erum báðir aðalþjálfarar og saman með þetta. Ég þekkti til strákana, ég hafði unnið með þeim síðasta sumar og á undirbúningstímabilinu á síðasta ári í markmiðasetningu sem íþróttasálfræðiráðgjafi," segir Siggi Raggi. „Mér fannst verkefnið mjög spennandi og skemmtilegt því þetta eru ungir strákar sem eru að megninu til heimamenn og eru áhugasamir um að læra að verða betri og eru tilbúnir að leggja mikið á sig til þess. Það er hvað skemmtilegast að þjálfa þannig hóp."

„Þeir sem eru í kringum félagið eru gamlir fótboltamenn sem maður kannast vel við. Það eru allir saman í þessu uppbyggingarstarfi að byggja upp gott lið og taka þann tíma sem þarf til þess. Við tókum mikilvægt skref í fyrra og til framtíðar viljum við að Keflavík spili í deild þeirra bestu."

Siggi Raggi segir að margir kostir séu við að hafa tvo aðalþjálfara sem er að færast meira í tísku í fótboltanum. „Það eru margir kostir við það og líka auðvitað ókostir. Kostirnir eru þeir að við ræðum öll málin ofan í kjölinn og fáum ólíka sýn á hluti. Við náum að komast yfir meira því við erum báðir aðalþjálfarar, það er hægt að leggja meiri vinnu á hvorn annan en þú myndir kannski leggja á aðstoðarþjálfarann þinn. Við reynum að hafa góða verkaskiptingu á milli okkar þannig að við nýtum styrleika hvors annars."

„Þetta hefur verið mjög lærdómsríkt ferli fyrir okkur báða. Samstarfið hefur gengið vel. Liðið okkar er að bæta sig og liðið hefur náð mjög góðum úrslitum á undirbúningstímabilinu. Það vakti athygli þegar við náðum jafntefli gegn Íslandsmeisturum KR í æfingaleik á útivelli í mjög góðum leik. Við höfum líka hikstað og við höfum margt að læra. Við ákváðum að þrír síðustu leikir liðsins fyrir mót yrðu gegn liðum úr Pepsi Max-deildinni; Val, KR og Gróttu. Svo við myndum sjá hvar við stæðum með liðið okkar. Við sjáum að við getum gefið flestum liðum landsins mjög góðan leik. Stefnan er að búa til lið sem getur verið í deild þeirra bestu."

Keflavík hefur í vetur bætt við meiri reynslu ofan á þann grunn sem var byggður í fyrra með ungum og efnilegum leikmönnum. „Okkur finnst erlendu leikmennirnir sem við fengum núna hafa fallið vel inn í liðið og eru allt flottir leikmenn og góðir karakterar. Það er komin öflug liðsheild í liðið, leikmenn sem eru tilbúnir að leggja á sig, vinna fyrir hvorn annan og spila góðan fótbolta í leiðinni. Mér finnst þetta vera á réttri leið, en svo er það annað að spila undirbúningsleiki og alvöru leiki. Við sjáum hvort við náum að halda þessu þegar mótið byrjar."

Hann er bjartsýnn á að Keflavík geti verið baráttunni um að fara upp. „Ég er alltaf bjartsýnn að eðlisfari og ég hef trú á liðinu mínu. Ég hef mikinn metnað sem þjálfari að gera vel og ég veit að leikmennirnir hafa það líka, og Eysteinn sem þjálfari. Við ætlum að gera allt sem við getum til að fara inn í hvern einasta leik til að vinna hann. Vonandi verðum við í einu af tveimur efstu sætunum þegar mótið klárast. Það er það sem öllum langar í Keflavík, að Keflavík sé með lið í efstu deild," segir Siggi Raggi og mikil tilhlökkun er fyrir því að byrja loksins.

„Meira að segja fyrir Ísland þá held ég að þetta sé met hvað undirbúningstímabilið er búið að vera langt og loksins er komið að þessu. Það er svo mikil tilhlökkun og spenna."

„Undirbúningurinn riðlaðist hjá öllum liðum á einhvern hátt og liðin verða kannski ekki öll komin í sitt besta stand í upphafi móts. Sum félög deildarinnar eru að sanka að sér leikmönnum núna þar sem þau héldu að þau hefðu tvo auka mánuði sem fóru í Covid-pásuna. Það sitja samt öll liðin við sama borð og hafa haft jafnlangan tíma til undirbúnings. Ég hef sjaldan verið jafn spenntur fyrir tímabilinu eins og núna," segir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, annar af aðalþjálfurum Keflavíkur.
Athugasemdir
banner
banner
banner