Enski landsliðsmaðurinn Jack Grealish er fimm hundruð pundum fátækari eftir 3-1 sigur Englands á Finnlandi í Helsinki í gær.
Grealish, sem skoraði fyrsta mark Englendinga í leiknum, gerði veðmál við Trent Alexander-Arnold er sá síðarnefndi var að undirbúa sig undir að taka aukaspyrnu í síðari hálfleiknum.
„Ég sagði við Trent áður en hann tók aukaspyrnuna að ég gæfi honum 500 pund ef hann myndi skora úr henni. Síðan þrykkti hann boltanum upp í samskeytin og inn,“ sagði Grealish eftir leikinn.
Hann var annars mjög ánægður með frammistöðuna og leikinn í heild sinni en markið tileinkaði hann ófæddri dóttur sinni.
„Markið kom af því þjálfarinn leyfði okkur að spila þetta svolítið frjálst. Ég spila oft með Angel Gomes á æfingum og veit hversu góður leikmaður hann er. Fagnið var síðan fyrir dóttur mína,“ sagði Englendingurinn sem ákvað síðan að sína Lee Carsley, bráðabirgðaþjálfari landsliðsins, stuðning sinn.
Carsley var gagnrýndur eftir 2-1 tapið gegn Grikkjum á Wembley, en óvíst er hvort hann verði áfram eftir næsta landsliðsverkefni.
„Hvað sem gerist með landsliðsþjálfarann þá mun fólk samt hafa eitthvað neikvætt að segja. Áður kallaði fólk eftir því að við myndum spila öllum sóknarsinnuðu leikmönnunum en það virkaði ekki. Ég skil þetta ekki. Ég elska að koma hingað, Carsley er topp þjálfari og ég elska að spila fyrir hann,“ sagði Grealish.
Athugasemdir