Liverpool hafnaði tilboði í Nunez og hefur áhuga á Tzimas - Chelsea hefur sett verðmiða á Nkunku - Rashford vill fara til Barcelona
   mið 15. janúar 2025 20:50
Elvar Geir Magnússon
Arnar Gunnlaugs orðinn landsliðsþjálfari Íslands (Staðfest)
Icelandair
Arnar Gunnlaugsson er nýr landsliðsþjálfari Íslands.
Arnar Gunnlaugsson er nýr landsliðsþjálfari Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum í kvöld að ráða Arnar Gunnlaugsson sem nýjan landsliðsþjálfara. Þá hefur Víkingur staðfest að félagið hafi samþykkt kauptilboð sambandsins í Arnar.

Í tilkynningu Víkings segir að félagið muni tilkynna um ráðningu nýs aðalþjálfara á næstu dögum en fastlega er búist við því að Sölvi Geir Ottesen, sem var aðstoðarþjálfari Arnars, taki við liðinu.

Af heimasíðu KSÍ:
Arnar, sem er Skagamaður að upplagi og verður 52 ára á árinu, hefur verið þjálfari meistaraflokks karla hjá Víkingi við góðan orðstír síðustu ár og unnið bæði Íslands- og bikarmeistaratitla. Hann er knattspyrnuáhugafólki einnig að góðu kunnur sem leikmaður, enda lék hann 32 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim þrjú mörk, auk þess að leika (og skora) fyrir öll yngri landsliðin. Arnar er uppalinn hjá ÍA og lék sem leikmaður flesta leiki sína hérlendis með liði Skagamanna, en lék einnig með KR, FH, Fram, Val og Haukum. Á atvinnumannaferli sínum erlendis lék Arnar í Hollandi, Þýskalandi, Frakklandi, Englandi og Skotlandi.

Fyrstu leikir íslenska landsliðsins undir stjórn Arnars verða umspilsleikir við Kósovó í mars um sæti í B-deild Þjóðadeildar UEFA. Fyrri leikurinn verður á Fadil Vokrri Stadium í Pristina 20. mars og seinni leikurinn á leikvangi Murcia á Spáni, Stadium Enrique Roca.

Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ
„Við erum mjög ánægð með niðurstöðuna. Það eru spennandi tímar framundan hjá íslenska landsliðinu og krefjandi verkefni fyrir nýjan þjálfara í mars, sem Arnar byrjar strax að undirbúa. Við höfum mikla trú á Arnari og hlökkum til að vinna með honum næstu árin, og vonandi sem lengst."

Arnar Gunnlaugsson, nýr þjálfari A landsliðs karla
„Ég er auðvitað bara fullur tilhlökkunar að takast á við þetta spennandi og krefjandi verkefni. Það er mikill heiður og líka mikil ábyrgð sem fylgir því að vera landsliðsþjálfari Íslands. Ég er klár í það verkefni."

Af heimasíðu Víkings:
Knattspyrnudeild Víkings þakkar Arnari kærlega fyrir einstaklega farsælt og gott samstarf og um leið óskum við honum farsældar í nýju starfi sem þjálfara A landsliðs Íslands. Knattspyrnudeild Víkings mun tilkynna um ráðningu nýs aðalþjálfara á næstu dögum.
Athugasemdir
banner
banner
banner