Arnar Gunnlaugsson er að taka við sem landsliðsþjálfari Íslands. Fram kom hér á Fótbolta.net í gær að gengið yrði frá ráðningu hans á stjórnarfundi KSÍ í dag.
Samkomulag er í höfn milli Arnars og KSÍ en sambandið þarf að greiða Víkingi fyrir Arnar. KSÍ mun enda með að greiða 10-15 milljónir til Víkings.
Samkomulag er í höfn milli Arnars og KSÍ en sambandið þarf að greiða Víkingi fyrir Arnar. KSÍ mun enda með að greiða 10-15 milljónir til Víkings.
Svo virðist sem Arnar hafi verið efstur á blaði hjá Þorvaldi Örlygssyni, formanni KSÍ, en þeir eru fyrrum liðsfélagar.
Arnar lék á sínum tíma 32 landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim þrjú mörk.
Arnar og Þorvaldur léku saman í landsliðinu en þeirra fyrsti landsleikur saman var 1993 í vináttulandsleik gegn Bandaríkjunum. Báðir voru þeir í byrjunarliði Íslands þann dag.
Þeir enduðu á því að spila 13 landsleiki saman. Tvö af þremur landsliðsmörkum Arnars komu í leikjum sem Þorvaldur spilaði líka.
Þorvaldur, sem lék 41 landsleik, þjálfaði svo síðar meir Arnar á síðasta ári á ferli hans, sumarið 2011 hjá Fram. Það sumar skoraði Arnar sjö mörk í 14 leikjum í efstu deild en hann var á þeim tíma byrjaður að hugsa út í þjálfun. Hann hafði verið spilandi aðstoðarþjálfari Hauka stuttu áður en hann gekk til liðs við Fram. Einnig hafði hann þjálfað ÍA ásamt tvíburabróður sínum, Bjarka.
Svo fóru skórnir upp á hillu og síðar byrjaði Arnar að þjálfa á fullu. Hann var aðstoðarþjálfari KR og Víkings áður en hann tók svo við sem aðalþjálfari Víkinga 2018. Segja má að það hafi breytt landslaginu í Víkinni en Arnar tók liðið úr fallbaráttunni og upp í það að vera besta lið landsins; hann hefur unnið tvo Íslandsmeistaratitla og fjóra bikarmeistaratitla sem þjálfari Víkings.
Fyrsta verkefni Arnars sem landsliðsþjálfari verða umspilsleikir gegn Kosóvó í Þjóðadeildinni í mars og svo tekur við undankeppni HM næsta haust.
Athugasemdir