Chelsea ætlar sér að vinna baráttuna um Guehi - Liverpool og Man City á eftir Frimpong - Tveir orðaðir við Arsenal - Al-Ahli gæti gert Vinicius að...
   mán 17. febrúar 2025 14:18
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Umfjöllun
Störukeppni sem endar bara á einn veg
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vinna Gylfi og Alfreð saman hjá Blikum?
Vinna Gylfi og Alfreð saman hjá Blikum?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nær Kári Gylfa yfir í Víkina?
Nær Kári Gylfa yfir í Víkina?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það bendir eiginlega allt til þess að Gylfi Þór Sigurðsson verði ekki leikmaður Vals þegar Íslandsmótið fer af stað í apríl. Hann er orðaður við Breiðablik og Víking.

Gylfi er samningsbundinn Val út komandi tímabil en miðað við sögur og staðreyndir síðustu daga þá virðist hann ekkert sérstaklega spenntur fyrir því að spila með liðinu í sumar.

Hjörvar Hafliðason fjallaði um það í Dr. Football á fimmtudag að Gylfi vildi fara annað, vildi fara í lið þar sem hann gæti unnið stóra titilinn. Hjörvar orðaði hann við Breiðablik, hans fyrrum félag en hann fór frá Breiðabliki út í atvinnumennsku fyrir 20 árum og starfsmaður knattspyrnudeildar er Alfreð Finnbogason, góður vinur Gylfa. Sögur hafa heyrst síðustu daga að Blikar séu að undirbúa tilboð í Gylfa. Fótbolti.net hafði samband við Alfreð á föstudag en hann vildi ekki tjá sig um samningsbundinn leikmann hjá öðru félagi.

Á föstudagsmorgni hafði ekkert tilboð borist í Gylfa en það barst seinna um daginn og fer tvennum sögum um hversu hátt það tilboð var. Valsmenn höfnuðu því tilboði en það var lægra en það tilboð sem barst fyrr í vetur því styttra er eftir af samningi Gylfa.

Í samtali við mbl.is sagði Arnór Smárason, yfirmaður fótboltamála hjá Val, að Gylfi yrði lykilmaður í liði Vals í sumar og það yrði að koma upphæð sem hafi ekki sést áður á Íslandi til að fá Gylfa frá Val.

„Sjálf­ur hef­ur hann ekki óskað eft­ir því að fara," sagði Arnór á föstudag.

Í útvarpsþættinum Fótbolti.net á laugardag var sagt frá því að Valur hefði boðið Gylfa nýjan samning á föstudeginum. Á sama tíma var Gylfi að spila með Val gegn ÍA í Akraneshöllinni. Gylfi bar fyrirliðaband Vals í leiknum, eins og í leikjunum á undan, en það vakti athygli að Gylfi tók ekki vítaspyrnu liðsins í seinni hálfleik. Þeir áhorfendur sem Fótbolti.net talaði við voru á því að það hefði verið eins og Gylfi hefði ekki nennt að taka vítið, Patrick Pedersen tók vítaspyrnuna, skoraði og tryggði Val jafntefli í leiknum.

Það var ekki það eina sem vakti athygli í Akraneshöllinni því Ólafur Már Sigurðsson, bróðir Gylfa, sagði Arnóri Smárasyni að losa Gylfa frá Val. Þetta heyrðu viðstaddir.

Á svipuðum tíma var Hjörvar Hafliðason að staðfesta tilboð Víkings eftir að hafa rætt við Sigurð Aðalsteinsson, föður Gylfa. Bróðir og faðir Gylfa eru sem sagt farnir að blanda sér í málið.

Hjörvar vakti svo athygli á því í á Youtube rás sinni að Valur hefði gert heiðursmannasamkomulag við Gylfa á sínum tíma um að hann mætti fara ef hann vildi.

Í samningi Gylfa er riftunarákvæði, ákveðin upphæð sem Valur þarf að samþykkja ef hún kemur á borðið. EF munnlegt heiðursmannasamkomulag var gert er hægt að velta því fyrir sér hvort að ný stjórn þurfi að standa við það samkomulag, af hverju var það ekki bara skriflegt?

Út frá þessari atburðarás er erfitt að sjá fyrir sér að Gylfi vilji vera áfram hjá Val og virðist eingöngu spurning um hvenær Valur sér þann kostinn vænstan að samþykkja tilboð í kappann. Gylfi og hans teymi er í störukeppni við Val. Hann mun fara, það er bara spurning hvert.

Það eru flestir sammála um það að Gylfi eigi að kosta meira en 6,5 milljónir en hversu mikils virði er hann? Hann verður samningslaus fljótlega, hann verður 36 ára í september og missti talsvert út á síðasta tímabili. Hann hefur haldist heill í vetur, er með augað á landsliðinu og langar greinilega mikið að vinna eitthvað á ferlinum áður en hann setur skóna upp í hillu. Heill Gylfi Þór Sigurðsson er besti leikmaður deildarinnar og gæti gert gæfumuninn í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Það að vinna Bestu deildina er mjög verðmætt eftir tilkomu Sambandsdeildarinnar því möguleikinn á að fara langt í Evrópu hefur aukist eins og sést á árangri Breiðabliks og svo Víkings að undanförnu.

Á KSÍ stendur að Gylfi sé samningsbundinn Val til 16. nóvember og út frá því mega önnur félög byrja ræða við hann upp á næsta tímabil þann 16. maí. Það eru því 88 dagar í það að Gylfi megi ræða við önnur félög.

Fótbolti.net hefur reynt að ná á Arnóri Smárasyni og Birni Steinari Jónssyni, formanni knattspyrnudeildar Vals, í dag en það hefur ekki tekist. Það hefur heldur ekki tekist að ná sambandi við Kára Árnason sem er yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi og er, líkt og Alfreð, fyrrum liðsfélagi Gylfa í landsliðinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner