Chelsea ætlar sér að vinna baráttuna um Guehi - Liverpool og Man City á eftir Frimpong - Tveir orðaðir við Arsenal - Al-Ahli gæti gert Vinicius að...
   mán 17. febrúar 2025 10:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Á Gylfi að vera dýrastur í sögunni? - „Er alveg ástæða fyrir því"
Gylfi Þór Sigurðsson,
Gylfi Þór Sigurðsson,
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi gefur áritanir.
Gylfi gefur áritanir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi í leik með landsliðinu á síðasta ári.
Gylfi í leik með landsliðinu á síðasta ári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hvað verður um Gylfa?
Hvað verður um Gylfa?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var mikið fjallað um Gylfa Þór Sigurðsson, leikmanns Vals, í síðustu viku. Breiðablik og Víkingur hafa áhuga að fá Gylfa í sínar raðir.

„Það virðist vera algjörlega ljóst að Gylfi vill ekki vera áfram á Hlíðarenda," sagði sparkspekingurinn Hjörvar Hafliðason í síðustu viku er hann fjallaði um meint 10 milljón króna tilboð frá Víkingum í Gylfa. Vísir sagði svo síðar frá því að tilboðið hefði verið upp á 6,5 milljónir króna. Allavega hafnaði Valur því.

Rætt var um mál Gylfa í útvarpsþættinum Fótbolti.net síðasta laugardag.

„Það er náttúrulega klásúla í samningi Gylfa, losunarákvæði. Ég held að það sé almennt bara en það eru 20 milljónir plús," sagði Benedikt Bóas Hinriksson í þættinum.

„Ef við leiðum af því líkum af hverju tilboð Víkinga er lægra núna, þá er það af því að Gylfi verður samningslaus í nóvember. Það þýðir að ef hann semur ekki við Val á næstu þremur mánuðum, þá má hann semja við annað félag 1. maí," sagði Tómas Þór Þórðarson.

„Fyrst að leikmaður úr HK fer á 11 milljónir og leikmaður úr Vestra í Stjörnuna á 13 milljónir. Þá ætla ég bara að segja að ef þú ætlar að kaupa Gylfa Sig, jafnvel þó að hann sé 35 ára, þá þarftu að borga meira," sagði Benedikt Bóas.

„Breiðablik er komið inn í þetta líka. Yfirmaður fótboltamála þar er jafnaldri hans og góðvinur, Alfreð Finnbogason. Hann er besti leikmaðurinn í deildinni og bæði Víkingur og Breiðablik trúa því djúpt í hjarta sér að ef Gylfi Þór Sigurðsson fer á annan hvorn staðinn, þá munu allavega allir segja að það lið verði meistari," sagði Tómas.

„Með Gylfa verðum við í umræðunni um að við verðum meistarar. Án hans... Hvernig seturðu verð á það?" sagði Benedikt. „Ef Gylfi er seldur innanlands, þá á hann að vera dýrasti leikmaður Íslands frá upphafi. Ég er þar."

„En undir hvaða kringumstæðum?" spurði Tómas og benti á að Gylfi væri 35 ára og væri að verða samningslaus eftir tímabilið.

„Bara öllum," sagði Benedikt og hló.

Það er alveg ástæða fyrir því
Þeir bentu svo á að það væri svo sannarlega ástæða fyrir því að þetta væri að koma út í kosmósið núna. Það væri einhver ástæða á bak við það.

„Það er alveg ástæða fyrir því að þetta kemur allt í einu Dr Football. Það þarf ekki heilaskurðlækni til að átta okkur á því. Það er ekki gaman fyrir Arnór (Smárason, yfirmann fótboltamála hjá Val) að díla við þetta," sagði Tómas Þór.

„Honum var boðinn nýr samningur í gærmorgun. Hann hefur ekki óskað eftir því að fá að fara við stjórnina," sagði Benedikt í þættinum á laugardag og bætti Tómas þá við:

„Ég myndi halda að hans teymi sé að reyna að láta að tosa hann í burtu. Kannski smá leikrit."

„Segjum að Breiðablik komi með 25 milljónir og við seljum hann fyrir metfé... hann er búinn að gera fína hluti fyrir Val og andann í húsinu. Þá þökkum við kærlega fyrir okkur. En á meðan hann er hjá okkur, þá er það þannig," sagði Benedikt, sem er Valsari, að lokum en hægt að hlusta á umræðuna í heild sinni í útvarpsþættinum hér fyrir neðan.
Útvarpsþátturinn - Sögulegur sigur, Siggi Raggi og ungir leikmenn
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner