Raphinha og Camavinga til Manchester - Thuram til ensks toppliðs - Newcastle með plan ef Isak fer
   mán 17. mars 2025 10:49
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Munnlegt samkomulag um félagaskipti Ara og möguleiki að annar Víkingur fari til Svíþjóðar
Ari Sigurpáls
Ari Sigurpáls
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Karl Friðleifur
Karl Friðleifur
Mynd: Víkingur
Pablo Punyed
Pablo Punyed
Mynd: Víkingur
Elmar Kári Enesson Cogic.
Elmar Kári Enesson Cogic.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Um helgina var greint frá því að kantmaðurinn Ari Sigurpálsson, leikmaður Víkings, væri á leið til sænska félagsins Elfsborg og fregnir frá Svíþjóð í dag á þá leið að Ari sé á leið til Borås á morgun og sé búinn að semja við félagið til 2029.

Fótbolti.net ræddi við Kára Árnason, yfirmann fótboltamála hjá Víkingi, og var hann spurður út í Ara og ýmislegt annað.

„Við erum komnir með munnlegt samkomulag varðandi kaupverð og erum að ganga frá skjalavinnslunni í þessum töluðu orðum," segir Kári.

Ekkert hræðilegt ef enginn kemur í staðinn
Það eru um þrjár vikur í Íslandsmót, hvernig er að finna mann í staðinn fyrir hann á þessum tímapunkti?

„Við erum með frábært lið og erum búnir að styrkja okkur gríðarlega frá síðasta tímabili. Sumt af því var próaktíft og annað vorum við aðeins að bíða með. Þetta er eitthvað sem við erum að skoða í rólegheitum, það hvarflaði alveg að okkur að þetta myndi gerast og erum alveg með eitthvað í pípunum, en það er svo sem ekkert hræðilegt þó að það komi ekkert í staðinn því við erum bara með það stóran og góðan hóp."

Stígur Diljan Þórðarson, Valdimar Þór Ingimundarson, Erlingur Agnarsson og Helgi Guðjónsson eru á meðal þeirra sem geta leyst kantstöðurnar ásamt Ara.

Kjartan og Elmar nöfn sem hafa verið á blaði
Kjartan Kári Halldórsson hefur verið mikið orðaður við Víking og FH hafnað tveimur tilboðum í hann. Hafa Víkingar verið nálægt því að krækja í hann?

„Það er eitthvað sem ég vil ekki vera tala um, hann er ekki hér svo það skiptir svo sem engu máli. En hann er auðvitað rosalega spennandi leikmaður, ég neita því ekki, mjög góður."

Elmar Kári Enesson Cogic, sóknarmaður Aftureldingar, var orðaður við Víking um helgina. Er það leikmaður sem Víkingur hefur verið að skoða?

„Hann hefur komið inn á blað til held ég flestra félaga í Bestu deildinni áður en Afturelding fór upp. Eins og ég segi, við erum bara að skoða þetta í rólegheitum."

Häcken hefur áhuga á Karli Friðleifi
Karl Friðleifur Gunnarsson er á blaði hjá sænska félaginu Häcken og sagt hafa kannað möguleikann á því að fá hann í sínar raðir. Er einhver þróun á því?

„Það er engin þróun, ég var búinn að heyra af þeirra áhuga, en það er ekkert meira en það. Þeir settu sig í samband, en það var algjörlega óformlegt."

Ertu að gera ráð fyrir að Kalli fari út fyrir byrjun Íslandsmóts?

„Nei, í rauninni ekki. En auðvitað er það möguleiki eins og með Ara. Ég reiknaði með að þeir myndu báðir fara í vetur. En svo þegar það var liðið svona langt inn í þennan glugga var ég orðinn efins. Það er aldrei að vita hvað gerist."

Pablo lítur mjög vel út
Er eitthvað nýtt varðandi stöðuna hjá Pablo Punyed sem er að snúa til baka eftir krossbandsslit, er vitað hvenær hann getur farið að spila?

„Það er eitthvað sem þarf að spyrja sjúkraþjálfarana að. Hann lítur gríðarlega vel út, ég var með liðinu á Kanarí, hann hreyfði sig mjög vel og er langt á undan áætlun, en það tekur bara ákveðinn tíma fyrir krossbandið að jafna sig alveg. Það er því þannig séð ekkert hægt að vera á undan áætlun í þeim skilningi, það er einhver lágmarkstími sem þetta tekur alltaf. Það er ekkert hægt að flýta því ferli þó að hann líti vel út," segir Kári.
Athugasemdir
banner
banner