Man City leiðir baráttuna um Gibbs-White - Chelsea hefur áhuga á Gyökeres - Watkins til Liverpool?
   fös 18. apríl 2025 12:48
Ívan Guðjón Baldursson
Maresca: Úrslitaleikur á sunnudaginn
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Chelsea tryggði sér sæti í undanúrslitum Sambandsdeildarinnar í gærkvöldi þrátt fyrir vandræðalegt tap á heimavelli gegn Legia Varsjá.

Áhorfendur bauluðu að leikslokum á Stamford Bridge og mun Chelsea mæta sænska félaginu Djurgården í undanúrslitum.

„Við komum inn í leikinn með þriggja marka forystu og það hefur spilað sinn þátt í þessu tapi. Við vorum ekki á réttum stað hugarfarslega. Við höfum verið á góðri siglingu en þetta var eitt skref til baka. Kannski bárum við ekki nægilega mikla virðingu fyrir andstæðingunum. Við undirbjuggum okkur ekki nógu vel og fengum að gjalda fyrir það," sagði Reece James, fyrirliði Chelsea, eftir tapið. „Þetta var pirrandi fyrir okkur og fyrir stuðningsmenn. Við megum ekki láta þetta gerast aftur."

Enzo Maresca þjálfari tjáði sig einnig að leikslokum.

„Við erum ekki ánægðir með þetta tap en við breyttum aðeins til í byrjunarliðinu eftir þriggja marka sigur í fyrri leiknum. Við vildum forða leikmönnum frá meiðslum til að geta teflt fram sterku liði í mikilvægum deildarleik um helgina."

Chelsea er í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar sem stendur eftir tvö jafntefli í röð, einu stigi frá Manchester City í Meistaradeildarsæti. Lærisveinar Maresca heimsækja Fulham um helgina en þeir hafa ekki unnið neinn af síðustu átta útileikjum sínum í deildinni. Það eru sex umferðir eftir af deildartímabilinu.

„Leikurinn á sunnudaginn er úrslitaleikur fyrir okkur. Við erum í mikilli baráttu í deildinni og liðin í kringum okkur eins og Newcastle og Aston Villa eru með meira sjálfstraust, en það er eitthvað sem getur breyst á skömmum tíma."

Sóknarmenn Chelsea, þeir Cole Palmer, Nicolas Jackson og Christopher Nkunku, eru ekki búnir að skora í síðustu leikjum. Palmer er ekki búinn að skora í 15 leikjum, Jackson í 12 leikjum og Nkunku í 8 leikjum. Svipaða sögu var að segja af Jadon Sancho þar til hann skoraði í jafntefli gegn Ipswich síðasta sunnudag.

Vinstri bakvörðurinn Marc Cucurella er markahæsti leikmaður Chelsea síðan um miðjan desember, með sex mörk skoruð.

„Við þurfum að laga markaskorunina, vonandi byrja Nico og Cole að skora aftur því þeir eru mjög mikilvægir fyrir okkur. Cucurella er að skora fyrir okkur þessa dagana en það er ekki gott merki því hann er ekki hans hlutverk."
Athugasemdir
banner