Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 18. júlí 2022 10:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rotherham
„Hún verður stórstjarna franska liðsins næstu árin"
Icelandair
Marie-Antoinette Katoto í leik gegn Breiðabliki í Meistaradeildinni.
Marie-Antoinette Katoto í leik gegn Breiðabliki í Meistaradeildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís Perla Viggósdóttir, varnarmaður íslenska liðsins.
Glódís Perla Viggósdóttir, varnarmaður íslenska liðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Franska landsliðið varð fyrir áfalli á dögunum þegar þær misstu framherjann sinn Marie-Antoinette Katoto í alvarleg meiðsli.

Hún spilar ekki meira með á Evrópumótinu í sumar, það er alveg ljóst.

Katoto, sem er 23 ára leikmaður Paris Saint-Germain, hefur gert 26 mörk í 32 landsleikjum. Þá er hún markahæsti leikmaður í sögu PSG þrátt fyrir ungan aldur.

Fréttamaður Fótbolta.net ræddi við fjölmiðlakonuna Syanie Dalmat sem starfar fyrir hið risastóra L'Équipe íþróttablað í gær. Hún var þar spurð út í Katoto og hvort hún væri stærsta stjarna liðsins.

„Við erum með fyrirliðann Wendie Renard sem hefur verið lengi í liðinu. Hún er held ég þekkt um allan heim. Hún er frábær leikmaður," sagði Dalmat.

„Katoto er nýja stjarnan því hún er sóknarmaður og fólk elskar sóknarmenn. Þjálfari liðsins taldi hana ekki tilbúna á HM 2019 með franska liðinu, en hún er komin inn og hún er búin að vera mjög góð. Hún var besti leikmaður frönsku deildarinnar á síðasta tímabili og það eru miklar væntingar gerðar til hennar. Hún verður stórstjarna franska liðsins næstu árin."

Ekki með gegn Íslandi
Ísland spilar við Frakkland í lokaleik riðlakeppninnar á EM í dag, mánudag.

Rætt var um Katoto á fréttamannafundi íslenska landsliðsins í gær. Glódís Perla Viggósdóttir, varnarmaður liðsins, var spurð hvort undirbúningurinn væri eitthvað öðruvísi fyrst Katoto væri ekki með í þessum leik.

„Nei, við gerum það ekki. Þær eru með það stóran hóp að ef einhver leikmaður dettur út - hvar sem það er í rauninni í liðinu - kemur annar nánast alveg eins leikmaður inn. Þetta er ekkert sem við höfum verið að setja mikla orku í," sagði Glódís og var Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, á sama máli.

„Ég veit að hún er stórkostlegur leikmaður en við erum ekki að fara breyta neinu í okkar varnarleik," sagði Steini.

Leikur Íslands og Frakklands hefst 19:00 og verður í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner