Arsenal vill Toney - Sancho bannaður frá æfingasvæði Man Utd - Cucurella vill yfirgefa Chelsea í janúar
   mán 18. september 2023 20:45
Ívan Guðjón Baldursson
England: Jóhann Berg byrjaði í jafnteflisleik
Mynd: Getty Images
Mynd: Nottingham Forest

Nottingham Forest 1 - 1 Burnley
0-1 Zeki Amdouni ('41)
1-1 Callum Hudson-Odoi ('62)


Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley og spilaði fyrstu 63 mínúturnar á útivelli gegn Nottingham Forest.

Leikurinn var nokkuð jafn en gestirnir frá Burnley tóku forystuna undir lok fyrri hálfleiks þegar Zeki Amdouni setti boltann í netið með flottu skoti eftir frábæra sókn.

Það var áfram jafnræði með liðunum í síðari hálfleik en nú var komið að heimamönnum að skora og var það nýi maðurinn sem gerði það. Callum Hudson-Odoi byrjaði leikinn, var líflegasti leikmaður Forest og skoraði stórglæsilegt jöfnunarmark með stórkostlegu skoti utan vítateigs sem fór í efsta part fjærstangarinnar og í netið.

Sander Berge kom inn af bekknum og setti boltann í netið fyrir Burnley en markið ekki dæmt gilt eftir athugun í VAR. Berge handlék boltann á leið sinni að marki og staðan því enn 1-1.

Það var mikið um að vera þar sem bæði lið reyndu að sækja sigurinn en það vantaði gæðin á síðasta þriðjungnum. Lyle Foster, suður-afrískur framherji Burnley, fékk að líta beint rautt spjald fyrir afar heimskulega hegðun í uppbótartíma. Hann gaf Ryan Yates tilgangslaust olnbogaskot sem var skoðað í VAR herberginu og Foster réttilega rekinn útaf.

Lokatölur urðu 1-1 og er þetta fyrsta stigið sem Burnley nælir sér í á úrvalsdeildartímabilinu. Jói Berg og félagar eiga aðeins eitt stig eftir fjórar umferðir, en Nottingham Forest er með sjö stig eftir fimm leiki.


Athugasemdir
banner