„Ég get staðfest að Börkur gerði samkomulag við mig að þeir myndu ekki standa í vegi fyrir Gylfa ef hann vildi fara, það var ein af ástæðunum fyrir að við skrifuðum undir," sagði Sigurður Aðalsteinsson faðir Gylfa Þórs Sigurðssonar við Fótbolta.net í dag.
Mikil dramatík hefur verið í gangi síðustu daga í málefnum Gylfa sem gekk að lokum í raðir Víkings í gær. Margt hefur verið skrifað og mikið sagt síðan þá og virðist sem ekkert lát ætli að verða á því.
Á laugardag hélt Hjörvar Hafliðason því fram á Youtube rás sinni að Gylfi hefði gert heiðursmannasamkomulag við Val þegar hann samdi við félagið um að hann mætti fara frá félaginu ef hann vildi.
Börkur Edvardsson fyrrverandi formaður knattspyrnudeildar Vals var til viðtals hjá Valtý Birni Valtýssyni í hlaðvarpsþættinum Mín Skoðun í dag og var hann spurður út í meint heiðursmannasamkomulag.
„Mér heyrist þú hafa fengið meinta krummasögu frá kjúkling, ekki krumma, því þetta er ekki sannleikanum samkvæmt. Það stendur allt á blaðinu sem er í samningnum og ekkert umfram það," sagði Börkur.
Sigurður er ósáttur við ummælin og segir Börk hafa rætt við Ólaf Má Sigurðsson son sinn og bróður Gylfa í vikunni um samkomulagið og staðfest þar tilvist þess.
„Hann er beint að segja að ég sé að ljúga þessu, en hann gerði þetta samkomulag ekki við Gylfa heldur við mig, ég er umboðsmaðurinn hans," sagði Sigurður.
„Samkomulagið var að Valur myndi ekki standa í vegi fyrir Gylfa ef honum líkaði ekki vel í Val og vildi fara. Þetta samkomulag er ekki til á pappír, en menn eiga bara að standa við gerða samninga. Í samningnum stendur svo að ef Gylfi færi erlendis þá fengi Valur bætur, en ekki sölu."
Athugasemdir