Íslendingarnir Úlfur Ágúst Björnsson og Sigurður Arnar Magnússon koma báðir til greina í nýliðavalinu fyrir MLS-deildina í Norður-Ameríku sem fer fram á morgun.
Líklegt er að Úlfur Ágúst verði valinn en hann þykir besti sóknarmaðurinn í nýliðavalinu.
Líklegt er að Úlfur Ágúst verði valinn en hann þykir besti sóknarmaðurinn í nýliðavalinu.
„Margir líta á Björnsson sem besta framherjann sem í boði er," segir í grein á heimasíðu MLS.
Úlfur Ágúst er sóknarmaður sem spilar með FH hér heima og í háskólaboltanum leikur hann með Duke, sem er risastór íþróttaháskóli. Hann er 21 árs gamall og hefur getið af sér gott orð í Bestu deildinni en gæti núna verið á leiðinni í MLS-deildina.
Sigurður Arnar kemst ekki á listann hjá heimasíðu MLS yfir bestu varnarmennina en það er spurning hvort hann verði valinn. Sigurður Arnar er varnarmaður sem spilar með ÍBV hér heima og Ohio State í Bandaríkjunum.
Síðasti Íslendingurinn til að vera valinn í nýliðavalinu var Þorleifur Úlfarsson en hann lék einnig með Duke. Hann var valinn til Houston Dynamo en leikur í dag í Ungverjalandi.
Dagur Dan Þórhallsson spilar þá í MLS-deildinni með Orlando en hann var keyptur þangað frá Breiðabliki.
Athugasemdir