Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   mán 20. nóvember 2017 12:15
Magnús Már Einarsson
Jóhann Helgi og Orri Hjaltalín á leið í Grindavík
Jóhann Helgi Hannesson.
Jóhann Helgi Hannesson.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Grindavík er að fá Jóhann Helga Hannesson og Orra Frey Hjaltalín í sínar raðir frá Þór samkvæmt öruggum heimildum.

Báðir eru þeir samningslausir og fara því frítt til Grindvíkinga.

Jóhann Helgi hefur allan sinn feril leikið með Þór en hann hefur skorað 61 mark í 207 deildar og bikarleikjum með félaginu á ferli sínum.

Hinn 27 ára gamli Jóhann Helgi skoraði sex mörk í Inkasso-deildinni í sumar. Árið 2014 skoraði hann sjö mörk í Pepsi-deildinni þegar Þórsarar féllu.

Grindvíkingar vilja styrkja sóknarlínuna eftir að hafa misst markahrókinn Andra Rúnar Bjarnason til Helsingborg í Svíþjóð á dögunum.

Reynsluboltinn Orri Freyr Hjaltalín spilaði með Grindavík frá 2004 til 2011 en hann er nú fluttur aftur til Grindavíkur.

Hinn 37 ára gamli Orri verður í þjálfarateyminu hjá Grindavík og einnig til taks sem leikmaður.

Í sumar spilaði Orri tuttugu leiki í Inkasso-deildinni með uppeldisfélagi sínu Þór en hann hefur á ferlinum skorað 66 mörk í 350 deildar og bikarleikjum.

Sjá einnig:
Komnir/Farnir og samningslausir í Pepsi-deild karla
Athugasemdir
banner
banner