Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   fim 21. mars 2024 12:17
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bailey verulega ósáttur eftir að Heimir valdi hann ekki vegna agabrots
Ætlar að taka sér frí frá landsliðinu
Leon Bailey.
Leon Bailey.
Mynd: EPA
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson.
Mynd: Getty Images
Leon Bailey, kantmaður Aston Villa á Englandi, segist ætla að taka sér frí með landsliði Jamaíku um ókomna framtíð.

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Jamaíku, valdi Bailey ekki í landsliðshóp sinn sem tekur þátt í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar. Bailey byrjaði síðasta leik þegar liðið vann stórkostlegan sigur á Kanada en hann braut agareglur í því verkefni og er ekki í hópnum núna.

Það eru stór verkefni framundan hjá Jamaíka og mun liðið taka þátt á Copa America í sumar, ásamt því að spila í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar gegn Bandaríkjunum í kvöld.

Heimir sagði við fjölmiðlamenn á Jamaíku að Bailey og liðsfélagi hans, Trivante Stewart hefðu yfirgefið liðshótelið og farið út að skemmta sér. Þeir hefðu svo misst af liðsrútunni daginn eftir.

Bailey - sem hefur verið helsta stjarna liðsins - fór í hlaðvarp núna á dögunum og lýsti þar yfir óánægju sinni með hvernig haldið er á spilunum í kringum landslið Jamaíku. Hann segist hafa hugsað um það að taka sér frí frá landsliðinu áður en hann var tekinn úr hópnum og núna ætli hann ekki lengur að gefa kost á sér.

„Þjálfarinn sagðist ekki ætla að velja mig í næsta verkefni en áður en það kom upp þá hafði ég hugsað mér að taka frí. Þessar fréttir frá þjálfaranum fylltu mælinn," sagði Bailey.

„Ég og þjálfarinn höfum átt gott samband en mér finnst það mjög gróft hjá honum að skilja mig eftir utan hóps."

Bailey fór í viðtalinu yfir að umhverfið í kringum landslið Jamaíku sé mjög ófagmannlegt. „Þeir vita ekki hvernig á að vinna vinnuna sína," segir Bailey en kom inn á það í viðtalinu að hann hefði aldrei fengið borgað fyrir að spila með landsliði Jamaíku, ekki einn einasta bónus. Hann segir að það taki mikla orku frá sér að spila fyrir Jamaíku og ætlar hann að taka sér frí.

Heimir tók við landsliði Jamaíku árið 2022 og undir hans stjórn hefur liðið náð flottum árangri.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner