Það er bara ein umferð eftir af ensku úrvalsdeildinni. Troy Deeney, sérfræðingur BBC, sér um að velja lið umferðarinnar og hann hefur sett saman lið úr 37. umferðinni. Athygli vekur að þrátt fyrir að Liverpool hafi tapað gegn Brighton þá eiga Englandsmeistararnir tvo fulltrúa í liðinu.
Markvörður: Emiliano Martínez (Aston Villa) - Táraðist eftir 2-0 sigur gegn Tottenham. Er hann að kveðja Villa og enska boltann?
Varnarmaður: Marc Cucurella (Chelsea) - Sýnt mikinn stöðugleika í gegnum tímabilið og skoraði eina markið í 1-0 sigri gegn Manchester United.
Varnarmaður: Nikola Milenkovic (Nottingham Forest) - Þessi stóri og stæðilegi Serbi hefur líklega verið besti miðvörður tímabilsins. Skoraði mikilvægt mark í sigrinum gegn West Ham.
Varnarmaður: Ezri Konsa (Aston Villa) - Skoraði gegn Spurs. Er að þróast og þroskast og orðinn mikill leiðtogi. Gæti orðið byrjunarliðsmaður með Englandi á HM á næsta ári.
Varnarmaður: Connor Bradley (Liverpool) - Margra augu beinast að Bradley vegna umræðu um bakvarðastöður Liverpool. Þrátt fyrir tap gegn Brighton átti hann góðan leik og lagði upp mark.
Miðjumaður: Declan Rice (Arsenal) - Skoraði sigurmarkið gegn Newcastle. Stígur upp þegar á þarf að halda. Leiðtogi án fyrirliðabands.
Miðjumaður: Yasin Ayari (Brighton) - Ungur, orkumikill og spennandi leikmaður sem skoraði laglegt mark gegn Liverpool.
Miðjumaður: Harvey Elliott (Liverpool) - Skoraði gegn Brighton. Sýndi þroska og sjálfstraust. Þarf mögulega að færa sig um set fyrir meiri spiltíma og gæti orðið stjarna hjá stóru félagsliði.
Miðjumaður: Iliman Ndiaye (Everton) - Hefur verið misjafn á tímabilinu en skráði sig í sögubækur félagsins með því að skora bæði mörkin í 2-0 sigrinum gegn Southampton í síðasta leiknum á Goodison Park.
Sóknarmaður: Eddie Nketiah (Crystal Palace) - Hefur átt erfitt tímabil en sýndi hvers hann er megnugur með tveimur mörkum í 4-2 sigri gegn Wolves.
Sóknarmaður: Jamie Vardy (Leicester) - Þessi goðsögn er að sjálfsögðu í liðinu. Skoraði sitt 200. mark fyrir Leicester í kveðjuleik sínum. Hver skrifaði þetta handrit?
Athugasemdir