Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   fös 22. nóvember 2024 07:00
Brynjar Ingi Erluson
Hörður fór aftur undir hnífinn - Snýr aftur í lok tímabils
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hörður Björgvin Magnússon, leikmaður Panathinaikos í Grikklandi, verður ekki með næstu mánuði eftir að hafa gengist undir aðgerð á hné.

Landsliðsmaðurinn hefur ekkert spilað síðan í september á síðasta ári.

Hann sleit krossband í leik með Panathinaikos gegn AEK og við tók erfitt og strangt endurhæfingaferli. Varnarmaðurinn fór í aðgerð og snéri ekki aftur fyrr en í lok sumars.

Framarinn sinnti sínum skyldum og æfði stíft með liðinu en fékk ekki tækifærið undir stjórn úrúgvæska þjálfarans Diego Alonso sem var rekinn eftir aðeins nokkra mánuði í starfi.

Portúgalski þjálfarinn Rui Vitoria tók við liðinu í lok október en stuttu fyrir fyrsta leik hans fann Hörður til í hnénu. Eftir frekari skoðanir kom í ljós að hann þurfti að fara í aðra aðgerð á hné.

Aðgerðin var framkvæmd í Barcelona af spænska lækninum Ramon Cugat. Hann er sá sami og framkvæmdi aðgerðina á Ballon d'Or-sigurvegaranum Rodri eftir að hann sleit krossband í byrjun tímabils.

Hörður fór í liðspeglun og var hugað að sinabólgu til að ná stöðugleika á hnéð.

Áætlað er að Hörður snúi aftur á völlinn í apríl eða maí, en þá verður liðið rúmt eitt og hálft ár frá því hann spilaði síðast leik.

Hörður kom til Panathinaikos frá CSKA Moskvu árið 2022 og var fastamaður í vörninni er liðið hafnaði í öðru sæti grísku deildarinnar.

Hann varð bikarmeistari á síðasta tímabili en hann lék tíu leiki og skoraði eitt mark áður en hann meiddist.
Athugasemdir
banner
banner
banner