Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 23. september 2021 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Eto'o býður sig fram til að bjarga kamerúnskri knattspyrnu
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Samuel Eto'o hefur ákveðið að gefa kost á sér sem forseti knattspyrnusambandsins í Kamerún.

Eto'o er ein helsta knattspyrnugoðsögn Kamerún en landið hefur farið í gegnum erfið ár sem hafa einkennst af borgarastyrjöld. Landið átti að hýsa Afríkukeppnina 2019 en fékk ekki leyfi til þess vegna stríðsástands. Kamerún fær þess í stað að hýsa keppnina á næsta ári ef ástandið skánar.

„Tíminn er á þrotum, við þurfum að byggja upp kamerúnska knattspyrnu. Ég er að bjóða mig fram af kærleik, ég elska Kamerún og kamerúnska knattspyrnu," sagði Eto'o, sem er markahæsti leikmaður í sögu landsliðsins.

Eto'o, 40 ára, er þó ekki eini fyrrum landsliðsmaðurinn í framboði í ár. Hann er í samkeppni við tvo aðra sem fóru með Kamerún á HM 1990, Jules Denis Onana og Emmanuel Maboang Kessack, um forsetastöðuna. Þar að auki er Seidou Mbombo Njoya, núverandi bráðabirgðaforseti, einnig í framboði ásamt umboðsmanninum Ivo Chi.

Óljóst er hvort Eto'o sé gjaldgengur til að gegna stöðu forseta knattspyrnusambandsins vegna þess að hann er með tvöfaldan ríkisborgararétt. Það var tilkynnt á dögunum að menn með tvöfaldan ríkisborgararétt gætu ekki farið í framboð.

Staðfestur framboðslisti verður gefinn út 11. október. Knattspyrnusambandið mun velja hverjir frambjóðendanna koma til greina fyrir kosningar.
Athugasemdir
banner
banner
banner