Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   fös 24. september 2021 19:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hemmi Hreiðars líklegastur til að taka við ÍBV
Hermann Hreiðarsson er aðstoðarþjálfari U21 landsliðsins.
Hermann Hreiðarsson er aðstoðarþjálfari U21 landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hermann Hreiðarsson er líklegastur til að taka við sem þjálfari ÍBV og stýra liðinu í efstu deild á næsta tímabili. Þetta herma heimildir Fótbolta.net.

Hermann, sem lék á sínum tíma 89 landsleiki fyrir Ísland og spilaði fjölmarga leiki í ensku úrvalsdeildinni, er uppalinn í Vestmannaeyjum og var spilandi þjálfari ÍBV 2013.

Síðan þá hefur Hermann þjálfað Fylki, verið aðstoðarþjálfari Kerala Blasters á Indlandi og Southend í ensku neðri deildunum. Í fyrra tók hann við Þrótti Vogum í 2. deildinni og stýrði liðinu upp í Lengjudeildina á liðinni leiktíð.

Ef Hermann yrði ráðinn til ÍBV yrði stórt skarð að fylla fyrir Þrótt Vogum sem spilar í fyrsta sinn í B-deildinni á næsta ári.

Hermann er einnig aðstoðarmaður Davíðs Snorra Jónassonar með U21 landsliðið.

Sigurvin Ólafsson þjálfari KV, Jón Þór Hauksson þjálfari Vestra og Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Fylkis eru meðal nafna sem hafa líka verið orðuð við ÍBV.

Helgi Sigurðsson lét af störfum eftir að hafa stýrt liðinu í annað sæti Lengjudeildarinnar og þar með upp í efstu deild.
Athugasemdir
banner
banner
banner