mán 25. júlí 2022 12:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Betsy Hassett spilar með Wellington Phoenix í vetur (Staðfest)
Kvenaboltinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Betsy Hassett er á leið frá Stjörnunni eftir yfirstandandi tímabil í Bestu deildinni, hún er búin að semja við Wellington Phoenix sem spilar í áströlsku deildinni.

Wellington er á Nýja-Sjálandi en þrátt fyrir það spilar liðið í áströlsku A-deildinni. Betsy er miðjumaður sem hefur leikið með Stjörnunni undanfarin tímabil.

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, staðfesti í samtali við Fótbolta.net að Betsy kæmi svo aftur í Stjörnuna næsta vor og myndi spila með liðinu á næsta tímabili.

Kvennalið félagsins var stofnað fyrir tæpu ári síðan og var síðasta tímabil í áströlsku deildinni því þeirra fyrsta í sögunni. Betsy er fædd árið 1990 og hefur spilað á Íslandi síðan 2017. Þá gekk hún í raðir KR og lék þar út tímabilið 2019. Þá samdi hún við Stjörnuna og hefur verið þar síðan.

Betsy er frá Nýja-Sjálandi og á að baki 128 landsleiki fyrri þjóð sína. Hugmyndin á bakvið skiptin til Wellington eru m.a. sú að stytta vegalengdir sem Betsy þarf að ferðast í þá landsleiki sem Nýja-Sjáland spilar í vetur.

Á síðasta tímabili skoraði hún fjögur mörk í fimmtán deildarleikjum og á þessu tímabili hafði hún komið við sögu í öllum tíu deildarleikjum Stjörnunnar. Eins og fyrr segir þá mun hún klára yfirstandandi tímabil og halda svo til Nýja-Sjálands.
Athugasemdir
banner