Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mið 25. nóvember 2020 21:54
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Meistaradeildin: Ajax og Atalanta pressa á Liverpool
James Milner svekktur í leikslok.
James Milner svekktur í leikslok.
Mynd: Getty Images
Gasperini, þjálfari Atalanta, ánægður - skiljanlega.
Gasperini, þjálfari Atalanta, ánægður - skiljanlega.
Mynd: Getty Images
Real Madrid vann mikilvægan sigur.
Real Madrid vann mikilvægan sigur.
Mynd: Getty Images
Meistararnir í Bayern eru komnir áfram.
Meistararnir í Bayern eru komnir áfram.
Mynd: Getty Images
Liverpool þurfti að sætta sig við sitt fyrsta tap í Meistaradeildinni á þessu tímabili þegar liðið tók á móti Atalanta á Anfield í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var ekki mikið fyrir augað, en gestirnir voru sterkari aðilinn. Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, var ekki sáttur með spilamennsku sinna manna og snemma í seinni hálfleiknum undirbjó hann fjórfalda skiptingu. Þegar Andy Robertson, Diogo Jota, Fabinho og Roberto Firmino voru klárir í að koma inn á, þá kom fyrsta markið.

Það gerði Josip Ilicic eftir frábæra sendingu frá Papu Gomez, en Kostas Tsimikas sofnaði aðeins á verðinum og Atalanta refsaði. Stuttu síðar skoraði Robin Gosens annað mark Atalanta og aftur var það Gomez sem átti stoðsendinguna.

Liverpool náði ekki að svara þessu og lokatölur 2-0 á Anfield. Frammistaða Liverpool ekki sérstök í kvöld, en byrjunarliðið var ekki það sterkasta. Sterkir leikmenn byrjuðu á bekknum og nokkrir lykilmenn eru frá meiddir.

Á sama tíma vann Ajax 4-1 sigur á Midtjylland, en núna er komin mikil spenna í þennan riðil. Mikael Neville Anderson kom inn á sem varamaður fyrir Midtjylland á 69. mínútu.

Liverpool er á toppi riðilsins með níu stig, en Ajax og Atalanta koma svo bæði með sjö stig þegar tvær umferðir eru eftir. Liverpool á eftir heimaleik við Ajax og útileik gegn Midtjylland.

Real Madrid með mikilvægan sigur
Það var stórleikur á Ítalíu þar sem Inter tók á móti Real Madrid. Eden Hazard kom gestunum frá Madríd yfir á sjöundu mínútu úr vítaspyrnu, en það dró svo til tíðinda eftir rúmlega hálftíma leik. Arturo Vidal, miðjumaður Inter, var ósáttur við að fá ekki vítaspyrnu og hann ákvað að rífa mikinn kjaft. Fyrir það fékk hann tvö gul spjöld með stuttu millibili og þar með rautt.

Það reyndist dýrkeypt fyrir Inter þar sem Real sigldi sigrinum heim í síðari hálfleiknum. Achraf Hakimi gerði sjálfsmark á 59. mínútu og lokatölur 2-0 fyrir Real, sem var án Sergio Ramos og Karim Benzema.

Real er núna með sjö stig í B-riðli, stigi minna en Borussia Mönchengladbach. Shakhtar Donetsk er með fjögur stig og Inter er með tvö stig. Útlitið er alls ekki gott fyrir Inter.

Ríkjandi meistarar Bayern München eru komnir áfram í 16-liða úrslit eftir sigur á Salzburg, en í sama riðli gerðu Atletico Madrid og Lokomotiv Moskva markalaust jafntefli. Bayern er á toppi riðilsins með 12 stig, Atletico er með fimm stig og Lokomotiv Moskva með þrjú stig. Salzburg er með eitt stig.

Þá vann Porto 2-0 sigur á lánlausum Marseille-mönnum í C-riðli. Porto er svo gott sem komið áfram með Manchester City úr þeim riðli. Man City er með 12 stig, Porto með níu stig, Olympiakos með þrjú stig og Marseille án stiga.

A-riðill:
Bayern 3 - 1 Salzburg
1-0 Robert Lewandowski ('42 )
1-1 Maximilian Wober ('52 , sjálfsmark)
2-1 Leroy Sane ('68 )
3-1 Mergim Berisha ('73 )
Rautt spjald: Marc Roca, Bayern ('66)

Atletico Madrid 0 - 0 Lokomotiv

B-riðill:
Inter 0 - 2 Real Madrid
0-1 Eden Hazard ('7 , víti)
0-2 Achraf Hakimi ('59 , sjálfsmark)
Rautt spjald: Arturo Vidal, Inter ('33)

C-riðill:
Marseille 0 - 2 Porto
0-1 Zaidu Sanusi ('39 )
0-2 Sergio Oliveira ('72 , víti)
Rautt spjald: Marko Grujic, Porto ('67), Leonardo Balerdi, Marseille ('70)

D-riðill:
Liverpool 0 - 2 Atalanta
0-1 Josip Ilicic ('60 )
0-2 Robin Gosens ('64 )

Ajax 3 - 1 Midtjylland
1-0 Ryan Gravenberch ('47 )
2-0 Noussair Mazraoui ('49 )
3-0 David Neres ('66 )
3-1 Awer Mabil ('81 , víti)

Önnur úrslit:
Meistaradeildin: City áfram - Gladbach í fínni stöðu í erfiðum riðli
Athugasemdir
banner
banner
banner