Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 29. nóvember 2021 08:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Brosti til hans og sagði honum að bíða og sjá"
Dagný með Elísu Viðarsdóttur á landsliðsæfingu í Kýpur.
Dagný með Elísu Viðarsdóttur á landsliðsæfingu í Kýpur.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir var í viðtali við heimasíðu FIFA um liðna helgi þar sem hún ræðir um þá upplifun að vera bæði móðir og fótboltakona á hæsta stigi leiksins.

Dagný, sem er leikmaður West Ham á Englandi, eignaðist son sinn árið 2018.

„Þetta var erfitt fyrir mig. Ég var ekki búin að plana að eignast barn og ég var svekkt þegar ég fékk fréttirnar fyrst. En ég áttaði mig á því að þetta var blessun," segir Dagný.

„Á meðan meðgöngunni stóð, þá hugsaði ég bara um það hvernig ég ætlaði að koma mér aftur á völlinn. En þegar ég hélt á syni mínum, þá hugsaði ég: 'Ég veit ekki hvort ég vil fara aftur út á völl; ég vil eyða hverri einustu mínútu með honum."

„En ég setti mér markmið á meðan ég var ólétt og ég vildi ná þeim. Það var erfitt, því þú byrjar á núllpunkti. Andlega var ég sami leikmaðurinn, en ekki líkamlega. Það var erfitt fyrir mig að vera þolinmóð, gera allt rétt og hafa trú á því að ég yrði aftur leikmaðurinn sem ég var áður."

Dagný segir að það hafi verið efasemdir um það að hún myndi koma til baka. Hún var staðráðin í að ná markmiðum sínum.

„Ég man að einn þjálfari á Íslandi sagði við mig: 'Þú færð ekki að spila bara af því að þú ert Dagný'. Eins og ég væri verri leikmaður bara af því að ég eignaðist barn. Ég brosti til hans og sagði honum að bíða og sjá. Þetta var ekki auðvelt... þú heyrir þessar raddir segja þér að þú getir þetta ekki. Stundum efaðist ég um sjálfa mig. En á sama tíma var þetta hvatning."

„Ég ætlaði mér að semja við stórt félag sem móðir. Það er gott fyrir aðrar konur að sjá að það er mögulegt. Ef þú ert með gott stuðningsnet og félag sem styður við bakið á þér, þá er það mögulegt."

Dagný þaggaði niður í efasemdarröddum með því að skrifa undir hjá West Ham. Hún hefur einnig spilað stórt hlutverk í landsliðinu undanfarnar vikur þar sem liðið er í baráttu um að komast á HM í fyrsta sinn.

„Þetta er kannski mitt síðasta tækifæri til að spila á HM, og það væri svalt að vera hluti af fyrsta íslenska liðinu til að komast inn á mótið - og vera fyrirmynd fyrir aðrar stelpur," segir Dagný, sem er svo sannarlega góð fyrirmynd.
Athugasemdir
banner
banner