fös 30. júlí 2021 11:54
Elvar Geir Magnússon
Ólympíuleikarnir: Ástralía sló Bretland út í sjö marka rússíbanaleik
Ástralía mætir Svíþjóð í undanúrslitum
Samantha Kerr og stöllur fagna.
Samantha Kerr og stöllur fagna.
Mynd: Getty Images
Brasilía tapaði í vítaspyrnukeppni.
Brasilía tapaði í vítaspyrnukeppni.
Mynd: Getty Images
Ástralía vann 4-3 sigur gegn Bretlandi í 8-liða úrslitum í kvennaflokki á Ólympíuleikunum í Japan. Leikurinn var framlengdur og mikil skemmtun.

Alanna Kennedy skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Ástralíu í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik náði Ellen White, leikmaður Manchester City, að snúa dæminu við með tveimur mörkum og skyndilega var Bretland 2-1 yfir.

En á 89. mínútu jafnaði Samantha Kerr, leikmaður Chelsea, í 2-2 og kom leiknum í framlengingu. Í framlengingunni klúðraði Carol­ine Weir vítaspyrnu sem var varin, þar hefði Bretland getað náð forystunni.

Mary Fowler og Kerr skoruðu á 103. og 106. mínútu og komu Ástralíu í 4-2. Ellen White innsiglaði þrennu sína með sárabótamarki en lengra komst Bretland ekki.

Ástralía mun mæta Svíþjóð í undanúrslitum. Svíþjóð vann 3-1 sigur gegn heimakonum í Japan. Magdalena Eriksson, Stina Blackstenius og Kosovare Asllani (víti) skoruðu mörk sænska liðsins.

Kanada mun svo mæta sigurvegurum úr leik Hollands og Bandaríkjanna í undanúrslitum en sá leikur er í gangi. Bandaríkin eru 2-1 yfir í hálfleik. Kanada vann Brasilíu í vítaspyrnukeppni í 8-liða úrslitum en staðan var markalaus eftir 120 mínútna leik.

Undanúrslitaleikirnir fara fram á mánudag.

Úrslit leikja í 8-liða úrslitum:
Ástralía 4 - 3 Bretland (eftir framlengingu)
Kanada 0 - 0 Brasilía (4-3 eftir vítaspyrnukeppni)
Svíþjóð 3 - 1 Japan
Hálfleikur: Holland 1 - 2 Bandaríkin

Undanúrslit á mánudag:
Ástralía - Svíþjóð
Kanada - Holland/Bandaríkin
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner