Magnús Már Einarsson skrifar frá Albaníu
Eftir að hafa orðið þess heiðurs aðnjótandi að sjá Ísland vinna magnaðan 2-1 útisigur á Albaníu í gær get ég ekki beðið eftir leiknum gegn Svisslendingum á Laugardalsvelli næstkomandi þriðjudagskvöld.
Baráttuandinn og samstaðan í íslenska liðinu var mögnuð í gær og leikmenn létu hluti utan vallar ekki hafa nein áhrif á sig. Það að vinna Albaníu á útivelli er mjög gott afrek en að gera það í þessum erfiðu aðstæðum í gær er hreint út sagt stórkostlegt.
Baráttuandinn og samstaðan í íslenska liðinu var mögnuð í gær og leikmenn létu hluti utan vallar ekki hafa nein áhrif á sig. Það að vinna Albaníu á útivelli er mjög gott afrek en að gera það í þessum erfiðu aðstæðum í gær er hreint út sagt stórkostlegt.
Albanir eru magnaðir í stuðningi sínum við landsliðið og Íslendingar gætu lært eitthvað af þeim á þeim vígstöðum. Langflestir mæta í rauðu á völlinn til að styðja sitt lið og þeir syngja og tralla allan leikinn. Reyndar nánast allan leikinn því Gylfi Þór Sigurðsson slökkti í þeim þegar tíu mínútur voru eftir í gær.
Með markinu skaut Gylfi liði Íslands einnig upp í annað sæti riðilsins. Það er langt síðan Ísland hefur verið í öðru sæti riðils í undankeppni að loknum þremur leikjum og eflaust ennþá lengra síðan liðið hefur átt möguleika á að vera í toppsætinu eftir fjórar umferðir. Með sigri gegn Sviss á þriðjudag mun Íslands sitja í toppsæti riðilsins næstu fimm mánuðina, það er ekki ónýtt!
Verkefnið er hins vegar allt annað en gefins því svissneska liðið er gríðarlega sterkt um þessar mundir. Svisslendingar eru aftur á móti eflaust spenntari fyrir mörgu öðru en að keppa við Ísland á útivelli í þriggja stiga hita á þriðjudagskvöldi í október. Áhorfendur geta haft sitt að segja í leiknum og gert Svisslendingum lífið ennþá erfiðara í leiknum á þriðjudag.
Stuðningurinn gegn Noregi í síðasta mánuði var mjög góður. Þar vantaði þó aðeins upp á að það væri fullt hús á Laugardalsvelli. Það er hægt að gera ennþá betur á þriðjudaginn og þar getur þú lagt þitt að mörkum. Stuðningsmannaklúbburinn Tólfan hefur rifið upp stemninguna á síðustu heimaleikjum og enn er hægt að bæta í.
Láttu ekki þitt eftir liggja. Klæddu þig vel í bláu litunum og hafðu röddina í lagi á Laugardalsvelli á þriðjudagskvöldið. Landsliðsstrákarnir eiga skilið að það verði uppselt á þennan leik.
Áfram Ísland!
Athugasemdir