Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mán 01. júlí 2024 19:27
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Ef hann á að fara núna þá þurfum við náttúrulega að hafa eitthvað út úr því"
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Grimsby og Breiðablik eru í viðræðum um möguleg félagaskipti Jasonar Daða Svanþórssonar. Þetta staðfesti Karl Daníel Magnússon, deildarstjóri afrekssviðs hjá knattspyrnudeild Breiðabliks, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Fjallað var um áhuga á Jasoni frá Englandi á föstudag og var nafn félagsins, Grimsby, fyrst nefnt hér á Fótbota.net.

„Grimsby er búið að hafa samband og við erum bara í viðræðum við þá," sagði Karl Daníel. Jason verður samningslaus í lok tímabilsins og getur þá farið á frjálsri sölu frá Blikum. Ef Grimsby, sem er í ensku D-deildinni, vill fá Jason strax, þá þarf félagið að kaupa hann af Breiðabliki. „Það eru viðræðurnar sem eru í gangi núna."

Áhugi Grimsby kom mjög óvænt upp en fyrr í sumar hafði Fótbolti.net greint frá því að Víkingur, Valur og KR hefðu sett sig í samband við Jason og rætt við hann um mögulegan samning eftir tímabilið.

„Hann er lykilmaður hjá okkur. Ef hann á að fara núna þá þurfum við náttúrulega að hafa eitthvað út úr því."

Er orðið ljóst að Jason mun ekki framlengja við Breiðablik?

„Þegar það kemur upp einhver áhugi að utan þá er eðlilegt að hann vilji kanna þann áhuga frekar. Í kjölfarið þurfum við að fara í viðræður við félagið um möguleikana í stöðunni. Okkar viðræður við Jason eru allavega í biðstöðu á meðan," sagði Karl Daníel sem svaraði neitandi þegar hann var spurður hvort að Breiðablik hefði fengið fleiri fyrirspurnir erlendis frá varðandi Jason.

Jason Daði Svanþórsson er sóknarmaður sem verður 25 ára í lok árs. Hann á að baki fimm leiki fyrir A-landsliðið.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner