Real Madrid vill Guehi - Arsenal á undan Juve í baráttu um Calafiori - De Ligt hefur áhuga á að fara til Man Utd
banner
   mán 01. júlí 2024 12:41
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Af hverju er Grimsby Town að horfa til Íslands?
Jason Daði Svanþórsson,
Jason Daði Svanþórsson,
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jason fagnar marki með Breiðabliki.
Jason fagnar marki með Breiðabliki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er mjög skrítið að lið í League 2 á Englandi sé að horfa til Ísland en það er eitthvað verkefni í gangi þarna á bak við tjöldin. Það eru komnir ráðgjafar þarna sem vilja fara aðrar leiðir en önnur lið eru að fara í deildinni. Þetta er upphafið að einhverju verkefni og ég heyrði að það væru fleiri Íslendingar á blaði hjá þeim," sagði Elvar Geir Magnússon í útvarpsþættinum Fótbolti.net á laugardag þegar rætt var um áhuga enska félagsins Grimsby Town á Jasoni Daða Svanþórssyni.

Það var fjallað um það hér á Fótbolta.net í síðustu viku að Grimsby Town hefði áhuga á Jasoni.

Jason verður samningslaus eftir tímabilið og hafa KR, Valur og Víkingur öll sett sig í samband við hann. En leiðin virðist liggja út núna og er áhugi á honum frá Grimsby. Eins og fram kom í útvarpsþættinum þá er Grimsby að fara svolítið aðrar leiðir en önnur félög í D-deildinni á Englandi, en áhuginn á Jasoni hefur líka örugglega með það að gera að David Artell, stjóri Grimsby, var nýverið í fríi á Íslandi.

Samkvæmt upplýsingum Fótbolta.net sá hann Jason skora gegn Víkingum í Bestu deildinni fyrir rúmum mánuði síðan.

Það verður að koma í ljós
Enn er ekkert staðfest hvort Jason fari út til Grimsby en viðræður eru í gangi. Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks var spurður út í áhuga enska félagsins eftir leik Blika gegn FH síðasta föstudag.

„Það er áhugi á honum og hefur verið áður. Og fleiri okkar leikmönnum," sagði Halldór en er Jason að fara núna í sumarglugganum?

„Það verður að koma í ljós. Ef það koma tilboð í leikmenn, þá ræða félögin sín á milli. Ef það næst samkomulag, þá hjálpum við leikmönnum yfirleitt að upplifa sína drauma og komast í atvinnumennsku. En það verður að koma í ljós hvað gerist."


Dóri Árna: Vorkenni því fólki sem greiddi sig inn á völlinn
Útvarpsþátturinn - Innkastið í beinni á X977
Athugasemdir
banner
banner
banner