Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   lau 01. ágúst 2020 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fimm leikmenn sem gera tilkall í landsliðið
Icelandair
Ísak Bergmann Jóhannesson.
Ísak Bergmann Jóhannesson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfons Sampsted.
Alfons Sampsted.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Fannar Baldursson.
Andri Fannar Baldursson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er langt um liðið síðan síðustu landsleikir fóru fram. Síðast lék íslenska karlalandsliðið alvöru landsleik í nóvember á síðasta ári þegar liðið bar sigur úr býtum gegn Moldóvu í undankeppni EM. Það áttu að fara fram leikir í umspili fyrir EM í mars en þeim leikjum var frestað af augljósum ástæðum og eiga núna að fara fram í október. Næsti leikur íslenska landsliðsins er gegn Englandi í september í Þjóðadeildinni.

Þar sem það er svona langt frá síðasta leik þá ákvað undirritaður að taka saman lista yfir fimm leikmenn sem hafa verið að standa sig vel frá síðasta landsliðsverkefni og gera tilkall í næsta landsliðshóp sem verður valinn í lok þessa mánaðar ef allt fer að óskum.

Þessir fimm leikmenn voru ekki í landsliðshópnum fyrir síðustu leikina í undankeppni EM í nóvember síðastliðnum. Leikmennirnir eru í stafrófsröð.

Alfons Sampsted
Hægri bakvarðarstaðan hefur verið vesen fyrir íslenska landsliðið að undanförnu. Hjörtur Hermannsson og Guðlaugur Victor Pálsson leystu hana í undankeppni EM en þeir eru báðir sterkari í öðrum stöðum. Alfons er 22 ára gamall og á að baki tvo A-landsleiki. Hann fékk ekki mörg tækifæri hjá Norrköping í Svíþjóð en snemma á þessu ári gekk hann í raðir norska félagsins Bodö/Glimt. Það virðist hafa verið góð skipti fyrir hann því hann hefur hingað til spilað hverju einustu mínutu fyrir liðið sem er á toppi norsku úrvalsdeildarinnar með 31 stig eftir 11 leiki.

Andri Fannar Baldursson
Framtíðin virðist mjög björt á miðsvæðinu í landsliðinu. Andri Fannar er ein af ástæðunum fyrir því. Hann er 18 ára gamall, fæddur 2002, en er farinn að spila í ítölsku úrvalsdeildinni með Bologna. Það segir til um það hversu öflugur þessi strákur er þegar Sinisa Mihajlovic er farinn að setja hann inn á leikjum gegn Inter og AC Milan í deild þeirra bestu á Ítalíu. Andri er að skoða það að skrifa undir nýjan samning við Bologna þrátt fyrir átta stór félög á Englandi og Ítalíu hafi spurst fyrir um hann. Hann var í landsliðshópi U17 landsliðsins sem spilaði í lokakeppni EM í fyrra, en hefur ekki enn spilað fyrir A-landsliðið.

Jón Dagur Þorsteinsson
Mjög frambærilegur kantmaður sem átti fantaflott fyrsta tímabil með AGF í dönsku úrvalsdeildinni. Hann spilaði stórt hlutverk í liðinu sem náði Evrópusæti. Hann var akademíu Fulham og hefur fundið góðan stað í Árósum, og gæti mögulega farið í stærra félag. Jón Dagur átti stórkostlegan leik í júní gegn deildarmeisturum Midtjylland er hann skoraði þrennu og lagði upp eitt í 4-3 útisigri. Jón Dagur er 21 árs og á að baki þrjá A-landsleiki fyrir Ísland og eitt mark. Hann er fyrirliði U21 landsliðsins.

Ísak Bergmann Jóhannesson
Var eins og Andri Fannar í lokahópi U17 landsliðsins á EM í fyrra og hefur farið með himinskautum síðan þá. Er búinn að festa sig í sessi sem byrjunarliðsmaður hjá Norrköping, toppliði sænsku úrvalseildarinnar, þrátt fyrir að vera aðeins 17 ára gamall. Liðsfélagar hafa talað fallega um Ísak og hans viðhorf sem fótboltamaður. Þá segir íþróttafréttamaðurinn Robert Laul að fólk muni í framtíðinni líta á það sem forréttindi að hafa fengið að fylgjast með þessum miðjumanni í sænsku úrvalsdeildinni. Sonur Jóhannes Karls Guðjónssonar, þjálfara ÍA og fyrrum landsliðsmanns, en hann hefur sagt að faðir sinn sé sín helsta fyrirmynd.

Willum Þór Willumsson
Þriðji miðjumaðurinn á þessum lista og þriðji leikmaðurinn sem uppalinn er í Breiðabliki. Willum er 21 árs gamall og var frábær með U21 landsliðinu undir lok síðasta árs og var farinn að banka fast á landsliðsdyrnar þá. Hann er á mála hjá BATE Borisov í Hvíta-Rússlandi en meiðsli hafa sett örlítið strik í reikninginn hjá honum á þessu tímabili.

Fleiri sem gera tilkall: Davíð Kristján Ólafsson, Hólmbert Aron Friðjónsson og Kjartan Henry Finnbogason.

Albert Guðmundsson var ekki í síðasta hóp vegna meiðsla. Hann er búinn að stíga upp úr þeim meiðslum og gerir auðvitað tilkall í næsta hóp ef hann verður heill heilsu.

Á morgun mun sambærilegur listi birtast hér á síðunni um fimm leikmenn sem gera tilkall í kvennalandsliðið.
Athugasemdir
banner
banner